Stjórn Náttúrustofu Suðvesturlands auglýsir starf forstöðumanns laust til umsóknar.

Náttúrustofa Suðvesturlands (áður Náttúrustofa Reykjaness) er
rekin skv. lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur
nr. 60 frá 1992.
Stofan er staðsett að Garðvegi 1 í Sandgerði og starfar þar undir
sama þaki og í nánu samstarfi við Þekkingarsetur Suðurnesja og
Rannsóknarsetur HÍ á Suðurnesjum.
Náttúrustofa Suðvesturlands hefur fengist við margvísleg vísindastörf
en rannsóknir tengdar lífríki sjávar, fjöru og stranda hafa verið
umfangsmestar ásamt vistfræðirannsóknum á fuglum. Stofan hefur
einnig tekið ríkan þátt í þjónustu- og umhverfisrannsóknum er
tengjast sérsviðum hennar og samstarfsaðilanna að Garðvegi 1,
sem og kennslu á háskólastigi.
Samkvæmt lögum skal forstöðumaður náttúrustofu hafa háskólapróf
í náttúrufræði eða þekkingu sem meta má til jafns við það.
Hann er í forsvari fyrir stofuna í heild, stjórnar daglegum rekstri
hennar og ræður að henni annað starfslið með samþykki stjórnar,
eftir því sem fjármagn fæst til hverju sinni.
Gerðar eru kröfur um að umsækjandi hafi faglega þekkingu á
viðfangsefnum Náttúrustofunnar auk góðrar og yfirgripsmikillar
þekkingar á náttúru starfssvæðis hennar. Umsækjandi skal hafa
forystu- og skipulagshæfileika, mjög góða samskiptahæfni og
jákvætt viðmót, og áhuga á uppbyggingu og þróunarstarfi með
samstarfsaðilunum á Garðvegi 1.
Forstöðumaður mun hafa starfsaðstöðu í Sandgerði
og gegna starfi sínu þaðan.
Æskilegt er að umsækjandi getið hafið störf sem fyrst.
Umsókn um starfið þarf að fylgja ítarleg starfsferilsskrá ásamt
kynningarbréfi þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar,
framtíðarsýn og rökstuðningi fyrir hæfni viðkomandi í starfið. Gefa
skal upp tvo til þrjá meðmælendur. Umsókn skal senda til stjórnar
Náttúrustofu Suðvesturlands, Vörðunni, Miðnestorgi 3, 245 Sandgerði
eða á netfangið sandgerdi@sandgerdi.is fyrir 22. janúar nk.
Nánari upplýsingar veitir Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri Sandgerðisbæjar
í síma 420 7500. Einnig má finna upplýsingar um starfsemina
á heimasíðu Náttúrustofu Suðvesturlands, www.natturustofa.is.