Sveitarfélagið Vogar hefur undanfarið unnið að gerð starfsmannastefnu og undirbúningi nýs skipulags stjórnsýslunnar, m.a. með nýju skipuriti. Verkefnið er unnið í samstarfi við ParX stjórnsýsluráðgjöf IBM.
Sem kunnugt er hefur sveitarfélagið vaxið gríðarlega hratt undanfarin ár, en síðustu tvö árin hefur íbúum fjölgað um 20% og eru nú rúmlega 1.200. Á næstunni verður hafist handa við uppbyggingu nýs íbúðahverfis norðan íþróttasvæðisins, svokallaðs Grænuborgarhverfis. Í ljósi mikillar fjölgunar íbúa undanfarin ár sem væntanlega mun halda áfram, var talið nauðsynlegt að rýna í skipulag þeirrar þjónustu sem sveitarfélagið er að veita og leita leiða til að gera hana skilvirkari og betur í stakk búna til að takast á við ný verkefni til framtíðar.
Markmið verkefnisins er þannig að greina núverandi skipulag stjórnsýslu og gera tillögur að breytingum ef þurfa þykir. Gera tillögu að heildarskipuriti hjá sveitarfélaginu og gera tillögu um fyrirkomulag innleiðingar. Vinnu við mat á núverandi stöðu sveitarfélagsins er lokið og hafa niðurstöður viðhorfskönnunar meðal starfsmanna verið kynntar starfsfólki sveitarfélagsins.
Þær upplýsingar sem safnast með viðhorfskönnuninni mynda grunn að nýrri starfsmannastefnu auk þess að vera hluti af þeim gögnum sem ráðgjafar leggja mat á við ofangreinda tillögugerð.
Markmið viðhorfskönnunarinnar var að:
Könnunin fór fram á netinu á tímabilinu 10. desember 2007 - 10. janúar 2008.
Svarhlutfall var 84%.
Niðurstöðurnar gefa okkur innsýn í styrkleika sveitarfélagsins og veikleika sem vinnustaður.
Meðal styrkleika sveitarfélagsins samkvæmt könnuninni er að starfsánægja er mikil og starfsandi góður meðal starfsmanna Sveitarfélagsins Voga. Starfsandi er betri meðal starfsmanna sveitarfélagsins en meðal starfsmanna ríkisstofnanna.
Jafnréttismál eru í góðum farvegi og jafnvægi gott milli vinnu og einkalífs. Þessi atriði eru í betri farvegi í Sveitarfélaginu Vogum en hjá starfsmönnum ríkisstofnanna.
Vinnubrögð eru fagleg og starfsfólk sveigjanlegt. Þjónusta er forgangsverkefni starfsmanna sveitarfélagsins í meiri mæli en meðal starfsmanna ríkisins.
Veikleikar sveitarfélagsins sem vinnustaður eru fyrst og fremst tveir. Vinnuálag og streita er meiri en meðal starfsmanna ríkisstofnanna og hollusta og tryggð starfsmanna við vinnustaðinn er minni en hjá ríkinu.
Næstu skref eru að halda áfram að byggja á þeim góðu kostum sveitarfélagið hefur sem vinnustaður og leita leiða til að draga úr veikleikunum. Nú þegar hefur verið brugðist við vinnuálaginu með ákvörðun bæjarráðs um greiðslu hvatagreiðslna til allra starfsmanna.
Auk þess þarf að kanna hvað veldur minni starfshollusta en hjá ríkisstofnunum.