Á annan í páskum verður boðið upp á gönguferð með leiðsögn í boði Bláa Lónsins og Grindavíkurbæjar. Gangan hefst kl. 13.00 við bílastæði Bláa lónsins og er áætlað að hún taki um 2-3 klukkustundir. Enginn þátttökukostnaður er í gönguna.
Gengið verður m.a. um mosagróið Illahraun, framhjá Rauðhól (gígnum sem hraunið kom úr á sögulegum tíma), farið með Skipstíg, fornri þjóðleið, haldið austur með suðurhlíðum Þorbjarnarfells og inn á Baðsvelli. Þar er ætlunin m.a. að kíkja á þjófaslóðir og hin gömlu sel Grindvíkinga. Þá verður gengið yfir að svæði Hitaveitu Suðurnesja og um hið litskrúðuga lónssvæði að lækningalindinni og endað í heilsulind.
Reynt verður að hafa ferðina og fræðsluna þannig að börn jafnt sem fullorðnir hafi gagn og gaman af. Góður skófatnaður æskilegur og gott að taka með sér smá nesti. Allir á eigin ábyrgð. Í lok göngu verður tilboð, 2 fyrir 1 ofan í lónið, vatnsleikfimi kl. 16.30 og spennandi páskamatseðill á Lava veitingastaðnum. Sjá nánar á www.bluelagoon.is
Jafnframt er tilvalið að koma við í Listsýningarsal Saltfisksetursins í Grindavík og skoða áhugaverða sýningu Fríðu Rögnvaldsdóttur, Forkar og fagrar meyjar. Opnunartími frá kl. 11 – 18. Sjá nánar á www.saltfisksetur.is