Sparisjóðurinn

Loksins bankaútibú í Vogum.

Föstudaginn 15. mars opnaði Sparisjóðurinn í Keflavík útibú í Vogum, nánar tiltekið  í Vogaseli að Iðndal 2. Þetta er stór dagur fyrir íbúa hreppsins því hingað til hafa íbúar þurft að leita út fyrir sveitarfélagið til að sinna bankaþjónustu. Þó að útibúið sé lítið þá er það útbúið nýjum og fullkomnum tækjum og verður þjónustufulltrúi við afgreiðslu sem getur sinnt flestum þörfum viðskiptavina. Opnunartími verður þrjá daga í viku, mánudaga, miðvikudaga og föstudaga frá kl. 15:00-18:00 og er eina útibú Sparisjóðsins sem er opið eftir kl. 16:00. Ef viðskiptin blómstra verður opnunartíminn endurskoðaður.

Gjafir frá Sparisjóðnum.

Í tilefni af opnun útibús í Vogum gaf Sparisjóðurinn veglegar peningagjafir til Ungmennafélagsins Þróttar og Björgunarsveitarinnar Skyggnis. Hvort félag fékk kr. 200.000 og munu aurarnir vafalaus koma sér vel í starfi félaganna.