Söngstund verður í félagssaðstöðu eldri borgara í Álfagerði í Vogum föstudagskvöldið 16. janúar kl. 20:00.
Þá munu tónlistarhóparnir Uppsigling og Dísurnar kíkja í heimsókn og taka lagið. Söngfélagið Uppsigling hefur sérhæft sig í að flytja íslensk sönglög og mun á föstudagskvöldið leggja sérstaka áherslu á lög við ljóð Davíðs Stefánssonar.
Dísurnar eru vel þekktar í Vogum. Þær munu flytja frumsamin lög eftir eina Dísuna (Bryndísi) við texta Davíðs Stefánssonar. Þær eru að flytja flest þessara laga í fyrsta sinn opinberlega, en eitt af lögunum hennar Bryndísar, Vorboði, er á plötu Kirkjukórs Kálfatjarnarkirkju.
Dísurnar eru Bryndís Rafnsdóttir, Svandís Magnúsdóttir, Sveindís Pétursdóttir og Þórdís Símonardóttir. Svo skemmtilega vill til að þær starfa allar við Stóru-Vogaskóla.
Að auki mun Marinó Sigurðsson leika á harmóniku.
Boðið verður upp á kaffi á þessu notalega söngkvöldi.
Eldri borgarar og áhugafólk um tónlist er hvatt til að mæta í Álfagerði á föstudagskvöldið og njóta góðrar kvöldstundar.