Snjómokstur

Kæru íbúar Sveitarfélagsins Voga!

Snjóalög það sem af er vetri eru með mesta móti, ekki hefur snjóað jafnmikið í nokkra áratugi. Af þessum sökum mæðir mikið á þjónustu bæjarins er snýr að snjómokstri og hálkueyðingu. Sveitarfélagið er í þeirri aðstöðu að þurfa að forgangsraða þjónustunni. Lögð er áhersla á að halda stofnbrautum og helstu tengibrautum opnum, sem og þeim götum sem liggja í átt að skóla og leikskóla. Leitast er við að bílastæði við grunn- og leikskóla séu einnig mokuð en það er ekki í fyrsta forgangi. Húsagötur og fáfarnari götur eru aðeins hreinsaðar ef þær eru orðnar þungfærar venjulegum fólksbílum, sem eru útbúnir til vetraraksturs. Ekki er mokað frá innkeyrslum og þurfa íbúar að sjá um það sjálfir. Gönguleiðir eru einnig ruddar eftir því sem kostur er. Lögð er áhersla á að moka fyrst þær leiðir sem liggja að skóla, leikskóla og Álfagerði. Þar á eftir eru göngustígar meðfram helstu stofn- og tengibrautum og göngustígar á opnum svæðum hreinsaðir.

Við biðjum bæjarbúa að sýna þolinmæði og skilning við þær erfiðu aðstæður sem nú eru ríkjandi. Starfsfólk sveitarfélagsins leggur sig fram um að veita bestu mögulegu þjónustu miðað við aðstæður, nú sem endranær.


Með kveðju,

Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri