Rauði kross Íslands hefur veitt nokkrum einstaklingum viðurkenningu fyrir skyndihjálparafrek á árinu 2005: Meðal þeirra sem hlutu viðurkenningu var Oddný Þóra Baldvinsdóttir leikskólakennari á leikskólanum Suðurvöllum í Vogum, en með réttum viðbrögðum losaði hún um aðskotahlut í hálsi samstarfskonu sinnar. Með réttum viðbrögðum hefur hún hugsanlega bjargað lífi.
Þetta atvik og önnur slík sýna glögglega að allir geta átt von á að lenda í þeim aðstæðum að þurfa með snarræði að bjarga sjálfum sér eða öðrum hvort sem þeir eru við leik eða störf. Allir búa yfir þeim dýrmæta hæfileika að geta bjargað lífi en suma vantar einungis herslumuninn til að ná tökum á tækninni sem til þarf. Þekking í skyndihjálp getur skipt sköpum.