Skuldastaða bæjarsjóðs


Í fréttum hefur komið fram að Sveitarfélagið Vogar sé meðal þeirra sveitarfélaga sem fengið hafi aðvörun frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga vegna skuldsetningar og/eða slæmrar rekstrarafkomu og er óskað eftir upplýsingum um það hvernig sveitarstjórn hyggist bregðast við fjárhagsvanda sveitarfélagsins.
Að gefnu tilefni vill Sveitarfélagið Vogar taka af öll tvímæli um það að sveitarfélagið á ekki við skuldavanda að stríða og þarf ekki að grípa til neinna ráðstafanna til að bæta þar úr.
Að halda slíku fram gerir það eitt að draga úr trúnaði þeirra sem til þekkja á eftirlitsnefndinni.
Sveitarfélagið Vogar telur að misskilnings gæti í athugasemdum eftirlitsnefndarinnar og að hún hafi ekki kynnt sér rekstur og stöðu sveitarfélagsins nægilega vel til að komast að þeirri niðurstöðu að fjárhagsstöðu þess gæti stefnt í óefni. Unnið er í því að svara eftirlitsnefndinni. Málið hefur þegar valdið sveitarfélaginu skaða og mikilvægt að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga leiðrétti þann misskilning sem hún hefur komið af stað um skuldastöðu Sveitarfélagsins Voga.
 Í árslok 2009 átti Sveitarfélagið Vogar handbært fé í formi bankainnistæðna upp á tæpa 1,4 milljarða.
Heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins í árslok 2009 námu rúmum 2,1 milljarði króna, þar af nema skuldir við lánastofnanir einungis rúmum 298 milljónum (að stærstum hluta við Lánasjóð sveitarfélaga), eða um 52% af tekjum sveitarfélagsins.
Önnur skuldbinding sveitarfélagsins er reiknuð lífeyrisskuldbinding upp á 68 milljónir sem mun koma til greiðslu á næstu 50-60 árum og því fráleittt að um bráðavanda sé að ræða. Að auki er skuldbinding upp á 1,5 milljarð sem eru framtíðar leigugreiðslur til Fasteignar sem mun falla til á næstu 30 árum. Vart þarf að geta þess að allar greiðslur sveitarfélagsins til Fasteignar hf. eru í skilum og hluti af föstum rekstrartölum. Að draga slíkar skuldbindingar inn í umræðu um skuldavanda er í besta falli athyglivert.
Í bréfi eftirlitsnefndarinnar til sveitarfélagsins kemur fram að hún hafi þá skoðun að hlutverk sveitarfélags sé ekki að ávaxta fjármuni umfram þá sem nauðsynlegir eru í hefðbundnum rekstri en telur niðurgreiðslu skulda farsælli fjármálastjórnun til lengri tíma litið. Sveitarfélagið telur að ályktunin endurspegli það að nefndin hefur ekki kynnt sér rekstur þess síðustu ár. Þær tæplegu 300 milljónir sem sveitarfélagið skuldaði til lánastofnanna um áramót eru fyrst og fremst lán sem bærinn hefur ekki heimild til að greiða niður. Geta og vilji er hvorutveggja verið til staðar. Án frekari uppgreiðslu lána mun Sveitarfélagið Vogar verða skuldlaust við lánastofnanir eftir 10 ár.
Árið 2009 var handbært fé frá rekstri hjá Sveitarfélaginu Vogum 1.392 milljónir. Vart þarf að benda eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga á að þá hefur þegar verið gert ráð fyrir bæði greiðslu til Fasteignar hf og lífeyrisskuldbindingum. Þetta er það fjármagn sem er afgangs til
 
að mæta afborgunum og fjárfestingahreyfingum. Í þessu samhengi má benda á að áætlaðar afborganir langtímalána á þessu ári eru um 43 milljónir.
Sveitarfélagið Vogar fékk fyrst upplýsingar um það í fjölmiðlum að eftirlitsnefndin væri að senda frá sér bréf vegna ætlaðs fjárhagsvanda. Slíkt eru ámælisverð vinnubrögð og til þess fallið vekja upp vangaveltur um tilgang slíkra erinda.
Aðferðir eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga hafa haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir bæjarfélag sem hefur tök á að vinna sig hratt og örugglega úr kreppu sem það ber enga ábyrgð á. Það er vægast sagt stórfurðulegt að fá ákúrur frá eftirlitsnefnd fyrir það fyrirkomulag.
Vinnubrögð eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga eru ámælisverð og gera það eitt að skaða enn frekar ímynd eftirlitsstofnana á Íslandi.
Vogum 6. september, 2010
Hörður Harðarson, formaður bæjarráðs
Eirný Vals, bæjarstjóri Sveitarfélagins Voga