Skógræktarfélagið eignast Háabjalla

 

 

Skógræktar- og landgræðslufélagið Skógfell var stofnað 23. júní 1998.  Félagið er eitt af fjölmörgum skógræktarfélögum vítt og breitt um landið sem heyra undir Skógræktarfélag Íslands.  Stofnfélagar voru 40 talsins og hefur stór hluti þeirra verið virkur í starfi félagsins.

 

Gönguferð á Litla-Skógfell sept. 2002

 

Starfsemi félagsins hófst af krafti stofnsumarið.  Auk undirbúnings við útvegun landsvæðis voru gróðursettar strax fyrsta sumarið 3000 trjáplöntur. Síðan þá hefur að meðaltali verið plantað um 1200 plöntum hvert sumar.  Svæðið sem kennt er við Grænhól og félagið hefur til umráða er fyrir ofan Brunnastaðahverfi, við svokallaðar Lágar, um 10 hektarar að stærð.  Kann félagið Brunnastaðahverfisbændum þakkir fyrir afnotaréttinn. 

Nemendur Stóru-Vogaskóla  hafa gróðursett trjáplöntur innan svæðisins sem þeir fá úthlutað á hverju ári úr Yrkjusjóði. 

Skógfell er þó ekki aðeins skógræktarfélag því eins og nafnið gefur til kynna er annarskonar landgræðsla einnig stunduð innan þess.  Borið hefur verið á og sáð í moldarflög ásamt umhirðu eldri trjáreita í hreppnum.  Má þar meðal annars nefna Ungmennafélagsreitinn við enda Iðndals sem er frá árinu 1951 og trjáreit (kosningatré) frá árinu 1988 á Stapanum milli gamla Keflavíkurvegarins og Reykjanesbrautarinnar, í daglegu tali nefnt Daylie Camp (á stríðsárunum var þar herskálahverfi).

 

Áð við rætur Litla-Skógfells

 

Virkni félagsmanna er góð.  Tíu til fimmtán manns mæta að meðaltali á vinnukvöldin, börn sem fullorðnir.  Hefur ánægja og eljusemi félagsmanna eflst við að sjá afrakstur vinnunnar því gróskan er mikil.  Undanfarin tvö sumur hefur félaginu líka borist aðstoð frá félagi sem kallast Sjálfboðaliða-samtök um náttúruvernd.        

         

Reykjanesskaginn hefur oft verið talinn erfiður til ræktunar.  Hvorki rok né selta kemur þó í veg fyrir að hér sé hægt að stunda hér ræktun.  Því til sönnunar má benda á nokkra fallega og vel gróna garða í sveitarfélaginu.   Gott dæmi um góð ræktunarskilyrði og góðan árangur við ræktun er án efa Háibjallinn.  Háibjallinn er hamrabelti við Snorrastaðatjarnir innan hreppsmarka Vatnsleysustrandarhrepps og er svæðið á náttúruminjaskrá.  Árið 1948 gáfu landeigendur í Vogum félagi suðurnesjamanna í Reykjavík 15 hektara landsvæði  undir skógrækt.  Þar hefur nú vaxið upp gróskumikill skógur og má þar meðal annars finna hæðstu tré sem mælst hafa á Suðurnesjum.  Skógfell hefur nú eignast þetta fallega landsvæði.   Ekki er algengt að skógræktarfélögin í landinu eigi sín ræktunarsvæði og er þetta því mikill fengur fyrir félagið.  Háibjallinn er einstaklega fallegur frá náttúrunnar hendi og býður ekki bara upp á möguleika til ræktunar heldur einnig til annarskonar útivistar. 

 

Gróðursetning við Skógfell

 

Aðalfundur er haldinn á hverju ári.  Auk venjulegra aðalfundarstarfa hafa ýmis erindi verið flutt þar til fræðslu og skemmtunar fundarmanna.

Fyrir áhugasamt skógræktar- og landgræðslufólk þá er vinna við skógrækt gefandi fyrir sál og líkama.  Áhugasamir um að starfa í félaginu hafi samband við stjórnarmenn. 

 

 

 

Stjórn Skógfells skipa: 

 

Oktavía Ragnarsdóttir           formaður

Þórdís Símonardóttir            gjaldkeri

Snæbjörn Reynisson             ritari

Guðrún Jónsdóttir                 meðstjórnandi

Anna Hlöðversdóttir              varaformaður

 

Vetrarmynd af Háabjalla                                  Vetrarmynd af kosningareit