Þann 1. janúar 2017 tóku gildi ný lög um húsnæðisbætur nr. 75/2016 sem fela í sér breytingar á húsaleigubótakerfi ríkis og sveitarfélaga. Frá áramótum sér Vinnumálastofnun um afgreiðslu nýrra húsnæðisbóta (áður almennar húsaleigubætur) en sveitarfélögin meta og afgreiða umsóknir um sérstakan húsnæðisstuðning, sem kemur í stað sérstakra húsaleigubóta.
Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárstuðningur til greiðslu á húsaleigu umfram húsnæðisbætur sem veittar eru á grundvelli laga um húsnæðisbætur nr. 75/2016. Markmiðið er að lækka greiðslubyrgði vegna húsnæðiskostnaðar hjá þeim sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði eða eru með íþyngjandi húsnæðiskost sökum lágra tekna, þungrar framfærslubyrði eða félagslegra aðstæðna. Sveitarfélögin Sandgerðisbær, Garður og Vogar hafa samþykkt reglur um sérstakan húsnæðisstuðning.
Félagsþjónusta Sandgerðisbæjar, Sv. Garðs og Sv. Voga annast afgreiðslu umsókna um sérstakan húsnæðisstuðning. Umsókn skal vera á sérstöku eyðublaði og undirrituð af heimilismönnum, 18 ára og eldri, til staðfestingar á þeim upplýsingum sem þar koma fram. Hægt er að nálgast umsóknareyðublað og aðrar upplýsingar á heimasíðum sveitarfélaganna eða í afgreiðslu bæjarskrifstofanna í lögheimilissveitarfélagi umsækjanda. Með umsókn skulu fylgja öll nauðsynleg gögn.