Vorið 2008 var ákveðið að marka sveitarfélaginu skólastefnu, bæjarstjórn skipaði verkefnisstjórn haustið 2008. Ákveðið var að afmarka stefnuna við grunnskóla, leikskóla og frístundastarf í sveitarfélaginu. Áhersla er lögð á að skóla- og frístundastarf sé í lifandi tengslum við nærsamfélagið.
Skólastefnan var staðfest í bæjarstjórn þann 5. nóvember síðastliðinn og hefur verið dreift í hvert hús í sveitarfélaginu.
Við stefnumótunina voru valin gildi skólastarfs í sveitarfélaginu, en þau eru ;
Samvinna- Víðsýni- Vellíðan
Gildin vísa til þess sem þátttakendur í stefnumótunarvinnunni meta mikilvægustu þætti skólastarfs.
Samvinna vísar m.a. til mikilvægis samstarfs heimilis og skóla, en ekki síður til samstarfs nemenda og starfsmanna og samvinnu milli skólastiga.
Víðsýni vísar m.a. til þeirrar gagnrýnu þekkingaröflunar og nýsköpunar sem fram fer í skóla- og frístundastarfinu, en ekki síður til virðingar og umburðarlyndis gagnvart öðrum.
Vellíðan vísar m.a. til starfsumhverfis sem er hvetjandi fyrir nemendur og starfsfólk og stuðlar að aukinni færni og þekkingu, en ekki síður til heilbrigðra lífshátta og hreyfingar.
Fræðslunefnd Sveitarfélagsins Voga ber ábyrgð á framkvæmd stefnunnar í samráði og samstarfi við stjórnendur skóla og frístundastarfs. Nánari útfærsla stefnunnar mun birtast í námsskrám og starfsáætlunum hverrar stofnunnar.
Skólastefnan nær til leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs. Það er von sveitarfélagsins að skólastefnan skapi grunn að enn öflugra og markvissara skólastarfi í Sveitarfélaginu Vogum. Svo það megi verða, er mikilvægt að allir, jafnt skólafólk sem aðrir íbúar, haldi stefnunni og gildum hennar á lofti.
Margir íbúar bæjarins hafa komið að samningu skólastefnunnar og þökkum við þeim þátttökuna.
Lesið nánar um skólastefnuna hér.