Sveitarfélög á Suðurnesjum hafa skrifað undir samstarfssamning við Umferðarstofu um gerð umferðaröryggisáætlunar sem miðar að auknu umferðaröryggi í bæjarfélögunum og virkjar sem flesta hagsmunaaðila til þátttöku. Samningurinn er rökrétt framhald þeirra aðgerða sem unnið hefur verið að í Vogum undanfarið, svo sem lækkun umferðarhraða innanbæjar í 30 km á klukkustund. Sú breyting hefur gefið góða raun.
Markmiðið er að auka öryggi allra bæjarbúa og annarra sem leið eiga um bæinn og fækka óhöppum og slysum í umferðinni.
Verkefnið er talið mikilvægt skref til þess að langtímamarkmiðum í umferðaröryggismálum verði náð en gerð umferðaröryggisáætlunar nýtist sveitarfélögunum í samræmingu vinnubragða.
Reykjanesbær skrifaði undir samkomulag um gerð umferðaröryggisáætlunar í apríl sl. og nú hafa önnur sveitarfélög á Suðurnesjum fylgt í kjölfarið.
Á vef Umferðarstofu má finna Slysakort, þar sem skráð eru öll slys árin 2007 og 2008. Það kort nýtist okkur við að kortleggja svokallaða svarta bletti í umferðinni.
Mynd: Jóna Kristín Þorvaldsdóttir bæjarstjóri Grindavíkur, Róbert Ragnarsson bæjarstjóri Voga, Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Ásmundur Friðriksson bæjarstjóri sveitarfélagsins Garðs, og Birgir Hákonarson framkvæmdastjóri umferðaröryggissviðs Umferðarstofu.