Heilsuleikskólinn Suðurvellir í Vogum er í samstarfi við íþróttaakademíu Háskólans í Reykjavík um vettvangsnám íþróttakennaranema. Í heilsuleikskólanum Suðurvöllum er lögð áherslu á heilsusamlegt mataræði og hreyfingu, en við leikskólann starfar íþróttakennarinn Baldvin Júlíus Baldvinsson. Íþróttakennsla hérlendis er sífellt í jákvæðri þróun og er farin að beinast að fleiri aldurshópum í samfélaginu en áður tíðkaðist og er leikskólinn engin undantekning.
Það er fagnaðarefni að Háskólinn í Reykjavík í tengslum við Íþróttaakademíuna leitaði til Heilsuleikskólans Suðurvalla með að fá að koma að íþróttakennaranemum í vettvangsnám. Baldvin íþróttakennari hefur umsjón með verkefninu. Fyrsti neminn var í leikskólanum síðastliðna viku. Hann heitir Jón Norðdal Hafsteinsson, sem meðal annars hefur getið sér gott orð á körfuknattleiksvellinum. Annar nemi mun síðan koma í október. Þetta verkefni er afar ánægjulegt innlegg í leikskólastarfið og góð tenging milli háskóla og leikskólastarfs á svæðinu.