Samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum við fráveitu í Vogum.

Undanfarna mánuði hefur Ellert Skúlason ehf unnið að endurbótum á fráveitu í sveitarfélaginu Vogum. Í gærmorgun var unnið að því að leggja sjólögn útrásar við hafnargarð  og þurftu fjölmargir að koma að því verki.  Björgunarsveitir  í Garði, Sandgerði, Grindavík og Vogum komu að verkefninu  með verktaka  með því að leggja til báta og starfsfólk í þessa umfangsmiklu aðgerð. Á þennan hátt vildi verktakinn leggja sitt af mörkum til að styrkja björgunarsveitir á Suðurnesjum. Áður var búið að leggja útrás frá suðurhluta byggðar út í Vogavík. 

Lögnin var lögð rúmlega 400 metra frá landi og var framkvæmdunum lokið stuttu eftir hádegi. Nú tekur við frágangur á lögnum og mun þeirri vinnu verða lokið fljótlega. Með þessu hefur útrásum verið fækkað úr fjórum í tvær.  Eftir framkvæmdirnar munu fráveitumál í Vogum standast ströngustu kröfur í umhverfismálum og nú geta íbúar Sveitarfélagsins notið þess að eiga hreinar fjörur til gönguferða og útivistar.

Hér má sjá fleiri myndir sem teknar voru þann 26. janúar 2011

Myndir tók Inga Sigrún Atladóttir