Samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum

Á vef Vikufrétta er birt viðtal við fráfarandi formann Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum Steinþór Jónsson þar sem hann kallar eftir viðbrögðum Voga og Grindavíkur vegna undirskriftar viljayfirlýsingar þessara tveggja sveitarfélaga auk Hafnarfjarðar um stofnun Suðurlinda, sem fram fór þann 15. nóvember síðastliðinn.

Í viðtalinu kemur fram að hér sé um hálfgerða sameiningu að ræða milli Voga, Grindavíkur og Hafnarfjarðar.  Því fer fjarri lagi.
Hið rétta er að sveitarfélögin þrjú hafa ákveðið að vinna saman að sameiginlegum hagsmunamálum sem tengjast skipulags-, umhverfis- og orkumálum.
Til samanburðar þessum gjörning má nefna samvinnu Garðs, Sandgerðis og Reykjanesbæjar um uppbyggingu á flugvallarsvæðinu en þar er verið að vinna sameiginlega að skipulagsmálum þess svæðis með hag sveitarfélaganna að leiðarljósi. Við höfum fagnað því verkefni, en ekki talið það kalla á umræðu um framtíð samstarfsins. Í ljósi sameiginlegra hagsmuna með nágrönnum sínum ber Sveitarfélaginu Vogum skylda til að starfa að lausnum þeirra mála. Mikilvægt er fyrir sveitarfélagið að vinna með nágrönnum sínum úr öllum áttum.

Í sama viðtali kemur fram að ekki hafi hugmyndir þessara þriggja sveitarfélaga verið ræddar innan stjórnar SSS. Það hefur ekki tíðkast að sveitarfélögin beri þar á borð öll þau mál sem unnið er að hverju sinni innan hvers sveitarfélags.

Það kom undirrituðum á óvart að kveðja fráfarandi formanns á aðalfundi var á þeim nótum að endurskoða þyrfti samstarfið að hluta til eða öllu leyti og jafnvel hætta því í núverandi mynd. Þetta var aldrei rætt í stjórn SSS á síðasta starfsári stjórnarinnar, en snertir þó beint samstarf sveitarfélaganna fimm.

Í viðtalinu er þeirri spurningu varpað til Voga og Grindavíkur hvernig sveitarfélögin sjái fyrir sér samstarf sveitarfélaganna á Suðurnesjum í framtíðinni. Réttast væri að fráfarandi formaður svaraði þeirri spurningu sjálfur enda kastaði hann fram þessari hugmynd á aðalfundi SSS og hlýtur því að hafa svörin eða a.m.k. hugmyndir um það hvernig breytt samstarf skuli líta út.

Í dag á Sveitarfélagið Vogar í góðu samstarfi við öll sveitarfélögin á Suðurnesjum og vinnur að mörgum málum bæði beint með einstökum sveitarfélögum og í gegnum SSS. Það sér ekki fyrir endann á mögulegum samstarfsflötum sem sveitarfélögin geta komið að.  Þegar gengið er til samstarfs hefur bæjarstjórn hagsmuni íbúanna í sveitarfélaginu að leiðarljósi. Oftar en ekki fara hagsmunir saman við hagsmuni nágrannanna og því eðlilegt að leita samstarfs.

Að okkar mati er nauðsynlegt að auka samskipti og samstarf sveitarfélaganna á Suðurnesjum og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Bættar samgöngur, íbúaþróun og breytingar í þjónustu kalla á aukna samvinnu á næstu árum. Nægir þar að nefna skipulagsmál, öryggismál og sorpeyðingu.

Vogamenn telja ekki að aukið samstarf einstakra sveitarfélaga við höfuðborgarsvæðið ógni samstarfinu á Suðurnesjum. Þvert á móti teljum við það tengja þessi vaxtarsvæði og efla þau í heild sinni. Hér eftir sem hingað til er bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga reiðubúin til samstarfs við önnur sveitarfélög um sameiginleg hagsmunamál.


Birgir Örn Ólafsson
forseti bæjarstjórnar

Róbert Ragnarsson
bæjarstjóri