Samningur um skráningu fornminja

Sveitarfélagið Vogar og Fornleifastofnun Íslands hafa undirritað samstarfssamning til 7 ára um vettvangsskráningu fornleifa í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið er mjög ríkt af minjum, en svæðisskráðar hafa verið um 1.300 minjar.

Samningurinn kveður á um að Fornleifastofnun Íslands mun skrá allar þekktar minjar á vettvangi og skila staðsetningarhnitum. Jafnframt mun Fornleifastofnun skíla skýrslum með fornleifaskrá, greiningu á minjaflokkum, ástandi minja og ábendingum um áhugaverða minjastaði.

Bæjarstjórn bindur miklar vonir við samstarfið, en stefnt er að því að nýta upplýsingarnar til að gera minjar aðgengilegri í sveitarfélaginu og styðja þannig við ferðaþjónustu á svæðinu. Víða í sveitarfélaginu má finna staði og minjar sem bera vott um starfs- og lifnaðarhætti síðustu alda. Slíkt er ómetanlegt í nágrenni við höfuðborgarsvæði og alþjóðaflugvöll.

Á mynd:
Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri og Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Fornleifastofnun Íslands við undirritun samningsins.