Sameiningarmál

Til íbúa Vatnsleysustrandarhrepps.

Neðangreint bréf hefur verið sent til allra íbúa.

 

Vogum 10. desember 2004.

 

 

Ágæti íbúi.

 

 

Nefnd um sameiningu sveitarfélaga sem starfar í umboði félagsmálaráðuneytis gerði tillögu í lok september sl. að öll sveitarfélögin á Suðurnesjum sameinuðust í eitt. Sveitarfélögunum var gefinn  frestur til 1. desember 2004 til að gera athugasemdir við tillöguna. Gert er ráð fyrir því að kosið verði um tillögur nefndarinnar í apríl 2005.

 

Á hreppsnefndarfundi 9. nóvember bókaði hreppsnefnd að enn vantaði niðurstöðu um hvaða verkefni sveitarfélögin koma til með að sinna í nánustu framtíð og með hvaða hætti tekjustofnar þeirra verði styrktir til að þau fái sinnt núverandi þjónustu og nýjum verkefnum.

 

Hreppsnefnd taldi sig þurfa svar við þessum spurningum áður en hún  leitaði eftir skoðun íbúa á málinu og óskaði eftir fresti til 31. janúar 2005. Hreppsnefnd gerði einnig ráð fyrir að nota tímann til  að halda borgarafund, senda helstu niðurstöður umræðna þar til íbúa og gera í kjölfarið könnun meðal þeirra til að fá fram afstöðu þeirra til málsins.

 

Sameininganefndin taldi þessa aðferð til fyrirmyndar en veitti einungis frest til 17. desember. Því er ljóst að ekki vinnst  tími til að halda borgarafund áður en hreppsnefnd ber að veita sitt svar til nefndarinnar. Hreppnefndin ákvað hins vegar að fá ParX – viðskiptaráðgjöf IBM til að framkvæma símakönnun meðal íbúa.

 

Könnunin verður gerð í næstu viku, dagana 13.-17. desember. Við hvetjum þig til að mynda þér skoðun á málinu og velta fyrir þér tillögu sameiningarnefndar og öðrum mögulegum sameiningarkostum.

Hægt er að skoða tillögur Sameininganefndarinnar á slóðinni: http://www.felagsmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/1641

 

Verði kosið um einhverja sameiningartillögu á næsta ári mun hreppnefnd beita sér fyrir því að fram fari vönduð kynning á málinu og stuðla þannig að opnum umræðum fyrir kosningarnar.

 

Ef þú lendir í úrtakinu viljum við hvetja þig til að gefa þér tíma til að svara könnuninni.

 

 

 

Bestu kveðjur,

 

F.h. hreppsnefndar

Jón Gunnarsson, oddviti.