Samband við foreldra hefur mikil áhrif á velferð unglinga

 

Samband við foreldra hefur mikil áhrif á velferð ungmenna. Stuðningur, eftirlit og sá tími sem foreldrar eyða með börnum sínum eru þar lykilatriði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í rannsókn sem Rannsóknir & greining hefur gert á meðal nemenda í níunda og tíunda bekkjar grunnskóla.

Í rannsókninni sem nefnist Ungt fólk kemur fram að 42% stúlkna en 26,1% pilta, sem hafa verið oft með foreldrum sínum utan skólatíma á virkum dögum hafa aldrei eða nær aldrei orðið ölvaðar síðustu þrjátíu daga áður en rannsóknin var gerð.

Áhrif jafningjahópsins eru sterk í lífi ungmenna. Unglingar sem eiga vini sem gengur vel í námi eru líklegri en aðrir unglingar til að ganga vel í námi einnig. Að sama skapi eru unglingar sem stunda íþróttir líklegir til að eignast vini sem gera það einnig. Hins vegar er áhættuhegðun eins og reykingar og áfengisneysla einnig hegðun sem mótast í jafningjahópnum. Þannig eru sterk tengsl á milli reykinga og áfengisnotkunar unglinga og jafningja þeirra, samkvæmt því sem fram kemur í niðurstöðum rannsóknarinnar.

Skuldbinding við nám og námsárangur jafningja hafa sterk tengsl við námsárangur meðal unglinga. Flestir unglingar telja líklegt að þeir afli sér meiri menntunar að loknum 10. bekknum og mun fleiri sjá fyrir sér að þeir sæki háskólanám síðar á lífsleiðinni en áður fyrr.

Skipulagt tómstundastarf í formi íþrótta, tónlistarnáms eða annars konar félagsstarfs hefur jákvæð áhrif í lífi unglinga. Unglingum sem taka þátt í slíku starfi líður alla jafnan betur en öðrum unglingum, þeir eru líklegri en aðrir til að sýna góðan námsárangur en ólíklegri til að nota vímuefni og stunda „partílífsstíl", að því er fram kemur í rannsókninni.

Niðurstöður rannsóknarinnar eru í samræmi við fyrri niðurstöður Rannsókna & greiningar.

Alls tóku 7430 nemendur í 9. og 10. bekk þátt í rannsókninni, sem er um 80,1% allra nemenda í þessum aldurshópum á Íslandi.

Rannsóknin fjallar um menntun, menningu, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna. Hún var lögð fyrir nemendur í 9. og 10. bekk í öllum grunnskólum landsins á síðasta ári.

Það eru menntamálaráðuneytið og Rannsóknir & greining sem er rannsóknarmiðstöð kennslufræði- og lýðheilsudeildar Háskólans í Reykjavík sem standa að rannsókninni, sem var kynnt í dag.

Menntamálaráðuneytið hefur staðið fyrir reglubundnum rannsóknum á högum barna og ungmenna síðan 1992 undir heitinu Ungt fólk. Rannsóknir & greining hefur verið samstarfsaðili menntamálaráðuneytisins frá árinu 1999 við þessar rannsóknir.

PDF-skrá Kynning á hluta rannsóknarinnar