Safnahelgi á Suðurnesjum 14. - 15. mars

Söfn á Suðurnesjum hafa tekið höndum saman um að bjóða í sjöunda sinn upp á sameiginlega dagskrá helgina 14. – 15. mars n.k. Markmiðið hefur frá fyrstu tíð verið hið sama þ.e. að kynna fyrir þjóðinni hin frábæru söfn og sýningar sem við bjóðum upp á á Suðurnesjum. Þetta er liður í menningarferðaþjónustu svæðisins og upplagt fyrir íbúa næsta nágrennis s.s. höfuðborgarinnar að renna í bíltúr hingað suður eftir um helgina og upplifa eitthvað af því fjölmarga sem hér verður í boði. Aðsóknin síðustu ár hefur alltaf verið að aukast og síðast komu í kringum 2000 gestir. Söfn, setur og sýningar á svæðinu eru mörg og fjölbreytt og því verður margt á döfinni og fjölbreytt dagskrá. Auk þess eru ýmis gallerí opin þar sem handverk og listmunir eru til sýnis og sölu. Athygli er vakin á því að ókeypis er inn á öll söfnin að þessu tilefni og um leið á þá dagskrá sem er í boði á hverjum stað.
 
Fulltrúar allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum hafa unnið sameiginlega að undirbúningi dagskrárinnar og er verkefnið stutt af Menningarráði Suðurnesja.
 
Öll dagskrá á safnahelgi.is
 
Dagskrá safnahelgarinnar má sjá á vefnum safnahelgi.is og kennir þar ýmissa grasa; alls kyns sýningar, tónleikar, fyrirlestrar og margs konar uppákomur. Söfn, safnvísar og sýningar nálgast á annan tuginn og eru þá bókasöfnin ekki talin með. Fjölbreytni safnanna er einnig einstök á ekki stærra svæði og fólk getur kynnst sögunni frá því fyrir landnám og til okkar tíma, margvíslegum atvinnuháttum, listum og náttúru. Sjósókn og vinnsla sjávaraflans er t.d. kynnt á a.m.k. fjórum söfnum í þremur mismunandi bæjarfélögum, Kvikunni í Grindavík, Byggðasafninu í Garði, Bátasafninu í Duushúsum og Byggðasafninu í Duushúsum.

Dagskrá safnahelgar á Suðurnesjum 14. - 15. mars 2015 (pdf)

Ókeypis á öll söfn.

Dagskrá Safnahelgar í Vogum laugardaginn 14. mars 2015

kl. 13.00 - 14.30 í Stóru- Vogaskóla
Lestrarfélagið Baldur - Bókasafnið í Stóru-Vogaskóla

Sýning á ýmsum munum í eigu Vogabúa sem tengjast hinum Norðurlöndunum og norrænu samstarfi. Gestir eru hvattir til að hafa meðferðis muni og sýna þá á staðnum.
Tónleikar: Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir vísnasöngkona syngur og leikur sönglög frá Norðurlöndum. Á efnisskránni eru m.a. lög eftir Barböru Helsingius, Bergþóru Árnadóttur og Olle Adolphson.

kl. 15:00 í Álfagerði
Minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar minnist aldarafmælis rithöfundarins Jóns Dan Jónssonar. Hann var fæddur á Vatnsleysuströnd og í mörgum af bókum hans má þekkja sögusvið úr bernskusveit hans. Sagt verður frá Jóni og lesið upp úr nokkrum ritverkum hans.

Boðið upp á kaffi og kleinur.
Allir velkomnir.


Sveitarfélagið Vogar, Lestrarfélagið Baldur, Minja- og sögufélag Voga og Norræna félagið Vogum