Sænski myndlistarmaðurinn Ellakajsa Nordström sem nú dvelur í gestavinnustofu Sveitarfélagsins Voga sýnir í Hlöðunni fimmtudaginn 10. febrúar kl. 19:00
Ellakajsa hefur í verkum sínum kannað ryk og aðrar leifar sem falla til frá degi til dags og er ýmist sópað í burtu eða hent.
Hvað gerist ef við skoðum vandlega þessa smáhluti sem við fleygjum í ruslið? Hvaða sögur hafa þeir að geyma, skipta þeir yfirhöfuð máli?
Með því að safna rusli með þeim sem sjá um þrif í Sveitarfélaginu Vogum gerir Ellakajsa tilraun til að skapa mynd af þorpinu, um leið og hún skapar dvöl sinni og upplifun af þorpinu merkingu.
Ellakajsa veitir hinu smáa athygli í verkinu sem sýnt verður í Hlöðunni. Hún dregur fram þessi smáatriði hversdagslífsins, sem við sjaldnast veitum athygli, og sýnir að þegar nánar er að gætt hafa þau að geyma bæði fegurð og ljóðrænu.
Um leið segir hið smáa okkur heilmikið um okkur sjálf, það sem annars týnist eða gleymist þegar við lítum á lífið frá breiðara sjónarhorni.
Sýningin hefst í Hlöðunni við Egilsgötu 8, 190 Vogum kl. 19:00 og eru allir velkomnir.
Nánari upplýsingar um verk Ellukajsu Nordström má finna á vefsíðu hennar
http://ellakajsanordstrom.blogspot.com