Reykjanes Geopark var stofnaður árið 2012 af sveitarfélögunum á Suðurnesjum ásamt Ferðamálasamtökum Reykjaness, Bláa lóninu, Þekkingarseturs Suðurnesja, Keili – miðstöð vísinda fræða og atvinnulífs og HS Orku. Reykjanes Geopark nær yfir allt land sveitarfélaganna og er samtals 825 km2 að stærð.
Laugardagskvöldið 5. september var tilkynnt við hátíðlega athöfn í Rouka Geopark í Finnlandi að Reykjanes Geopark fengi aðild að samtökunum European Geoparks Network. Um er að ræða samtök svæða sem eru jarðfræðilega merkileg. Samtökin njóta stuðnings UNESCO, Mennta-, menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna.
Um er að ræða mikla viðurkenningu fyrir íbúa og atvinnurekendur á svæðinu en aðild að samtökunum nýtist til markaðssetningar, fræðslu og uppbyggingar á Reykjanesinu.
Stefna sveitarfélaganna á Reykjanesi og ferðaþjónustunnar á svæðinu er m.a. að leggja áherslu á jarðminjar svæðisins og vellíðunar ferðamennsku í markaðsstarfi svæðisins. Einkennandi fyrir svæðið er m.a. flekaskilin, gígaraðir, háhitasvæði, jarðvarmi og Bláa Lónið. Svæðið er einnig með frábæra náttúru og aðstöðu til vellíðunar ferðamennsku.
Reykjanes Geopark vill auka vitund íbúa og gesta um sérstöðu Reykjanesskagans í jarðfræðilegu tilliti og koma sögu svæðisins á framfæri. Þetta er m.a. gert með aukinni fræðslu og styrkingu innviða ferðaþjónustunnar. Reykjanes Geopark mun nú njóta ávinnings af samstarfinu innan European Geoparks Networks, m.a. með auknu markaðsstarfi og aðgengi að evrópsku neti sérfræðinga. Það mun því reyna á ferðaþjónustuna, sveitarfélögðin og aðra hagsmunaaðila að nýta sér Reykjanes Geopark í starfsemi sinni, t.d. markaðssetningu.