Rekstur samkvæmt áætlun og skuldir minnka

 

Um þessar mundir vinna sveitarfélög landsins að fjárhagsáætlunum sínum fyrir árið 2014. Dagana 3. og 4. október hélt Samband íslenskra sveitarfélaga árlega fjármálaráðstefnu sína, þar sem m.a. voru kynntar helstu forsendur fyrir næsta ár auk þess sem farið var yfir rekstur og efnahag sveitarfélaganna í landinu almennt. Góður árangur hefur náðst þegar á heildina er litið, skuldir hafa lækkað, tekjur aukist og útgjöld minnkað. Fréttastofa RÚV flutti fréttir af ráðstefnunni og vakti m.a. athygli á því að sum sveitarfélög glímdu við erfiðan rekstur og mikla skuldasöfnun, að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga. Jafnframt var fullyrt að m.a. Sveitarfélagið Vogar fengju ekki nægt fé úr rekstrinum fyrir daglegum útgjöldum. Í tilefni þessa fréttaflutnings vill sveitarfélagið koma eftirfarandi á framfæri:

 

Rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs samkvæmt ársreikningi árið 2012 var jákvæð (þ.e. tekjur umfram gjöld) um tæpar 180 m.kr. Í sjóðsstreymisyfirliti er rekstrarniðurstaðan leiðrétt vegna liða sem ekki hafa áhrif á fjárhagsstreymi, þannig að fundin er stærðin „Veltufé frá rekstri“. Sú tala var neikvæð í ársreikningnum um 17 m.kr., eða sem nemur 6,1% af tekjum. Af þessu má ráða að rekstur bæjarsjóðs hafi ekki átt fyrir daglegum útgjöldum. Frá því er að segja að í upphafi þessa árs (2013) kom loks til framkvæmda uppgjör við Eignarhaldsfélagið Fasteign (EFF) í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar félagsins. Skuldbinding vegna leigusamninga lækkuðu umtalsvert, auk þess sem afsláttur fékkst af leigugjöldum og var það afturvirkt til miðs árs 2011. Við frágang ársreiknings sveitarfélagsins fyrir árið 2012 var ákveðið að taka einungis hluta fjárhæðarinnar sem kom til leiðréttingar inn í rekstrarreikning ársins. Hinn hlutinn var meðhöndlaður beint í fjárstreyminu sem leiðréttingarfærsla. Við útleiðingu á fyrrgreindu veltufé er hins vegar öll fjárhæðin tekin með þ.m.t. vegna fyrri ára.   Hefði einvörðungu verið tekin sú fjárhæð sem færð er á rekstur hefði veltufé frá rekstri verið jákvætt um 54 m.kr., en ekki neikvætt um 17 m.kr. í samræmi við framsetta fjárhagsáætlun er gerð var í maí sl. við gerð viðauka við fjárhagsáætlun vegna endurskipulagningar á EFF.   Þetta snýst því um framsetningu í ársreikningi. Reikningsskilaaðferðir og reikningsskilastaðla má túlka misjafnlega, að mati sumra fagaðila er jafnvel talið óeðlilegt að taka alla fjárhæðina út úr veltufé frá rekstri við gerð sjóðsstreymis árið 2012, heldur ættu rúmar 71 millj. kr. vegna niðurfellinga á viðskiptareikningi við EFF o.fl. að fara sem breyting á svokölluðum rekstrartengdum kröfum.  Framsetning þessi hefur engin áhrif á fyrri áætlanir sveitarfélagsins, enda er handbært fé frá rekstri ávallt hið sama hvaða framsetning sem valin er á fyrra árs leiðréttingum vegna EFF.

 

Skuldahlutfall bæjarsjóðs er sagt vera í fréttaflutningi 212% af tekjum, en má samkvæmt fjármálareglum vera 150% af tekjum að hámarki. Hér ber að hafa í huga að til eru tvö hugtök: skuldahlutfall og skuldaviðmið. Þegar skuldahlutfall er reiknað eru skuldir bæjarsjóðs reiknaðar út sem hlutfall af tekjum samkvæmt ársreikningi, en þegar skuldaviðmið er reiknað er hins vegar gert ráð fyrir peningalegum eignum til lækkunar, samkvæmt heimild í fjármálareglum sveitarfélaga.  Í tilviki Sveitarfélagsins Voga voru tæplega 700 m.kr. inni í banka um síðustu áramót, þ.e. eign Framfarasjóðs. Skuldaviðmiðið í árslok 2012 er um 105%, en samkvæmt fjármálareglunum er hámarksskuldaviðmið 150% eins og áður segir og því stenst sveitarfélagið það viðmið og gott betur. Fyrr á þessu ári keypti sveitarfélagið fasteignir Stóru-Vogaskóla af EFF, kaupverðið var um 630 m.kr. Kaupverðið var staðgreitt án þess að tekin væru lán, inneignin í Framfarasjóði var nýtt til að fjármagna kaupin. Fyrir liggur því að raunverulegt skuldahlutfall er nú þegar komið niður undir 100%. Í árslok 2014 mun sveitarfélagið væntanlega leysa til sín fasteignir Íþróttamiðstöðvarinnar af EFF, þá er gert ráð fyrir lántöku að fjárhæð 400 m.kr. Það er líka rétt að árétta að sveitarfélagið skuldar engar langtímaskuldir, einungis leigusamninga við EFF og Búmenn (um 236 m.kr). Eftir að búið er að kaupa fasteignirnar af EFF eru því skuldir sveitarfélagsins áætlaðar um 636 m.kr., eða um 95% af tekjunum.

 

Reksturinn árið 2013 er í öllum meginatriðum í samræmi við fjárhagsáætlun, sem gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaðan verði jákvæð um tæpar 4 m.kr. og að veltufé frá rekstri verði jákvætt um 83 m.kr. Skuldir sveitarfélagsins hafa nú þegar lækkað á árinu um 630 m.kr. og því vel innan viðmunarmarka.

 

Samantekið í stuttu máli:

1.       Reksturinn er í járnum  en réttu megin við strikið

2.       Veltufé frá rekstri í árslok 2013 verður jákvætt (u.þ.b. 10% af tekjum)

3.       Skuldir sveitarfélagsins eru nú þegar vel innan viðmiðunarmarka fjármálareglna sveitarstjórnarlaganna.

 

Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri