Pistill Bæjarstjóra-Vogar Hraðferð

Ný persónuverndarlöggjöf
Á næsta ári tekur gildi ný löggjöf um persónuvernd. Löggjöf þessi mun hafa umtalsverð áhrif á starfsemi sveitarfélaganna að því leyti, að huga þarf að ýmsum atriðum er lúta að persónuverndarákvæðum og varða starsfemi sveitarfélaga. Samband íslenskra sveitarfélaga stóð í upphafi þessa mánaðar fyrir málþingi er nefndist „Persónuverndardagurinn“ þar sem fjallað var um málið af ýmsum sérfræðingum. Á málþinginu kom m.a. fram að rétturinn til að gleymast, til að fá upplýsingar um sig leiðréttar og vita af vinnslu persónuupplýsinga um sig eru á meðal nýmæla sem verða fest í persónuverndarlögum. Nýjar skyldur sveitarfélaga, raunhæf ráð vegna innleiðingar, skýjalausnir og öryggi var á meðal þess sem fjallað var um á persónuverndardegi sveitarfélaga. Sveitarfélagið Vogar mun á næstu mánuðum huga að þeim ráðstöfunum sem nauðsynlegt er að viðhafa við gildistöku laganna, sem felst m.a. í breyttum verkferlum er samræmast nýju löggjöfinni. Upplýst verður um framvindu þess máls á vef sveitarfélagsins eftir því sem vinnunni vindur fram.


Áherslur á málefni sveitarfélaga
Á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga er vitnað í viðtal við framkvæmdastjóra Sambandsins, í tilefni þess að ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum og þær áherslur sem birtast í sáttmála hinnar nýju ríkisstjórnar. Að sögn framkvæmdastjórans er það mat hans að enginn stjórnarsáttmáli sé með jafn mikla áherslu á málefni sveitarfélaga. Í kaflanum um byggðamál segir að landsmenn skuli hafa jafnan aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum um land allt. Ríkið ætlar einnig að auka samráð við sveitarfélögin um verkefni þeirra og fjárhagsleg samskipti, auk þess að skilgreina
betur hlutverk landshlutasamtaka og styrk sveitarfélaga til að rísa undir nauðsynlegri þjónustu. Þetta er sérstakt fagnaðarefni, vonir sveitarstjórnarmanna eru auðvitað bundnar við að þessar áherslur nái allar fram að ganga.


Viðburðir á aðventu
Nú þegar hefur ýmislegt áhugavert verið í boði fyrir íbúa sveitarfélagsins, það sem af er aðventu, sem ber vott um fjölbreytileika félagslífsins hér í sveitarfélaginu. Um helgina verður t.a.m. hin árlega skötuveisla Lionsklúbbsins, nánar tiltekið á laugardag í Álfagerði. Í vikunni var hin árlega jólasamvera Kálfatjarnarkirkju og eldri borgara, sem var vel sótt og heppnaðist vel. Svo er auðvitað sjáfsagt að nefna enn einn viðburðinn, þ.e. „Tabookvöld“ í Félagsmiðstöðinni Borunni í kvöld, en þá mun Sigga Dögg kynfræðingur fræða unglingana um kynlíf, spjalla við þá um málefnið og svara spurningum.


Að lokum
Þetta er síðasti föstudaspistill fyrir jól. Framundan er jólahátíðin með öllu sem henni tilheyrir, sem ég vona að hver og einn njóti til fulls. Samvera með fjölskyldunni, bóklestur, útivera, gera vel við sig í mat og drykk eru meðal þeirra atriða sem koma upp í hugann þegar nær dregur að jólum. Ekki má heldur gleyma að vetrarsólstöður eru á næsta leiti, en í ár bera þær upp á fimmtudaginn 21. desember, kl. 16:28 svo allri nákvæmni sé nú vel til haga haldið. Á þessum tímapunkti stendur sólin kyrr, þ.e. hættir að lækka á lofti og hinn dásamlegi viðsnúningur hefst með því að daginn lengir um eitt hænufet á dag. Ég óska öllu samstarfsfólki mínu hjá sveitarfélaginu gleðilegra jóla, sem og öðrum lesendum föstudagspistilsins. Megi jólahátíðin færa ykkur gleði og frið og umvefja ykkur birtu og hlýju.