Pistill bæjarstjóra - Vogar-Hraðferð

Almenningssamgöngur
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur umsjón með skipulagi og framkvæmd almenningssamgangna í landshlutanum ásamt tengingum við höfuðborgarsvæðið. Fyrirkomulag þetta byggir á samningi SSS og Vegagerðarinnar frá árinu 2012, þegar ákveðið var að afleggja sérleyfin sem áður tíðkuðust og innleiða þess í stað samræmdar almenningssamgöngur fyrir allt landið með tengingu við almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Í kjölfarið var efnt til útboðs um aksturinn hér á Suðurnesjum, ásamt því að SSS gerði samkomulag við Strætó bs. líkt og önnur landshlutasamtök, um sérfræðiþjónustu ýmiss konar ásamt því að innleidd var samræmd gjaldskrá. Í Vogum hefur fyrirkomulagið verið á þann hátt að sveitarfélagið annast akstur smárútu nokkrum sinnum á dag að biðstöð leiðar 55 við mislægu gatnamótin, með því móti geta íbúar sveitarfélagsins ferðast hvort heldur sem er til höfuðborgarsvæðisins eða annarra staða á Suðurnesjum. Nýlega bárust fréttir af því að verktakinn hefði ákveðið að segja samningi sínum upp einhliða, þrátt fyrir að samningstíminn væri ekki liðinn. SSS ákvað því að bjóða út að nýju, og stendur það ferli yfir um þessar mundir. Vonir eru bundnar við að nýr verktaki taki við um áramótin, en gera má ráð fyrir að SSS höfði skaðabótamál á hendur fyrri verktaka vegna hinnar ólögmætu uppsagnar á samningnum. Þjónustan hefur verið vel nýtt af íbúum Sveitarfélagsins Voga, á árinu 2016 voru liðlega 7 þúsund innstig í Vogastrætó, á þessu ári má þó búast við lítils háttar fækkun og að farþegafjöldinn verði um 6.600. Það er því ljóst að þjónustan er vel metin og nýtt af mörgum, og því mikilvægt að hún haldi áfram og vonandi batni á næstu árum.


Óskað eftir tilnefningum
Nú þegar áramótin nálgast kemur að því að tilnefna íþróttamann ársins fyrir árið 2017. Á vef sveitarfélagsins má sjá f´rett þar sem óskað er eftir tilnefningum, en viðkomandi þarf að vera í íþróttafélagi innan ÍSÍ og vera búsettur í Sveitarfélaginu Vogum. Einnig er óskað eftir tilnefningum til hvatningaverðlauna 2017, en þar er óskað eftir tilnefningu íþróttamanns á aldrinum 12 – 16 ára, sem er áhugasamur, með góða ástundun, sýnir góða hegðun innan vallar sem utan, góður félagi og telst vera góð fyrirmynd annarra unglinga.


Velferðarsjóður
Nýverið tóku höndum saman Kvenfélagið Fjóla, Lionsklúbburinn Keilir og Kálfatjarnarkirkja og stofnuðu líknarsjóð sem hlaut nefnið Velferðarsjóður Sveitarfélagsins Voga. Nú hefur sjóðurinn auglýst eftir umsóknum um jólastyrki, en umsækjendur þurfa að vera búsettir í sveitarfélaginu og hafa þar lögheimili. Sjá nánar frétt á heimasíðu sveitarfélagsins.


Stoppu-stuð
Fyrr á þessu ári færði Orkusalan öllum sveitarfélögum landsins hleðslustöð fyrir rafbíla að gjöf. Nú hefur gjöfinni verið komið fyrir við Vogabæjarhöllina, þannig að þeir gestir íþróttamiðstöðvarinnar sem eiga rafbíl geta stungið í samband og hlaðið bílinn, meðan líkami og sál fá sína orkuhleðslu í íþróttamiðstöðinni.


Að lokum
Aðventan og aðdragandi jólanna er ljósum prýdd, enda skammdegið í algleymingi. Góða og gleðiríka helgi!