Húsnæðisáætlun til umfjöllunar
Á fundi bæjarráðs í vikunni var fjallað um lokadrög að húsæðisáætlun sveitarfélagsins, sem hefur verið í vinnslu frá því fyrr á þessu ári. Áætlunin er unnin með Sverri Bollasyni, ráðgjafa hjá VSÓ Ráðgjöf. Húsnæðisáætlunin er hugsuð sem leiðarvísir til fjögurra og átta ára um húsnæðismál í sveitarfélaginu. Áætlunin snertir bæði á skipulagsmálum og velferðarmálum í sveitarfélaginu og getur haft mótandi áhrif á framkvæmd þeirra málaflokka. Sveitarstjórnir annast framkvæmd laga um almennar íbúðir og er sú skylda höfð til hliðsjónar við gerð áætlunarinnar. Á fundinum fór ráðgjafi sveitarfélagsins ítarlega yfir helstu forsendur og megin þætti áætlunarinnar, þar sem bæjarráðsmönnum gafst kostur á að spyrja spurninga og ræða einstök atriði hennar. Stefnt er að því að bæjarstjórn samþykki húsnæðisáætlunina á fundi sínum síðar í þessum mánuði.
Lóðum á miðsvæði úthlutað
Á fundi bæjarráðs í vikunni var fjallað um umsóknir um lóðir á miðsvæði, en lóðarirnar voru auglýstar lausar til umsóknar í síðasta mánuði. Áður hefur komið fram á þessum vettvangi að mikill áhugi er á lóðunum. Byggingaverktakar sóttu um allar fjölbýlishúsa- og parhúsalóðirnar sem í boði voru. Við úthlutunina ákvað bæjarráð að skipta lóðunum milli þeirra fjögurra lögaðila sem sóttu um, samtals 80 íbúðum í fjölbýlis- og parhúsum. Einnig voru til úthlutunar fimm einbýlishúsalóðir, og þurfti að draga úr umsóknum þriggja einstaklinga um sömu lóðina. Nú hefur því verið úthlutað lóðum undir 84 af 85 íbúðum, einungis er ein einbýlishúsalóð sem enn er laus til umsóknar. Bæjarráð hefur lagt drög að því að ráðast í áframhaldandi gatnagerð á miðsvæði á næsta ári, enda ljóst að enn er töluverð eftirspurn er eftir lóðum.
Íbúafjöldinn nálgast fyrra met
Íbúum í sveitarfélaginu hefur fjölgað talsvert undanfarna mánuði, rétt eins og reyndin er í öðrum sveitarfélögum í landshlutanum. Í upphafi árs 2016 bjuggu hér um 1.100 íbúar, ári síðar voru þeir orðnir rétt um 1.200 og nú í þessari viku er fjöldi íbúa kominn í 1.243. Við erum því farnir að nálgast mesta fjölda íbúa sem var fyrir hrun, en þá voru liðlega 1.250 íbúar skráðir til heimilis í sveitarfélaginu. Sé rýnt betur í tölfræðina kemur í ljós að samsetningin er að breytast, þ.e. innbyrðis hlutfall hinna ýmsu aldurshópa. Þrátt fyrir þessa mikla fjölgun undanfarin tvö ár fækkaði nemendum grunnskólans úr 195 í 175 milli þessa og síðasta skólaárs. Meðalfjöldi barna á leikskólaaldri í hverjum árgangi er minni en meðalfjöldi barna á grunnskólaaldri í hverjum árgangi. Allt eru þetta í senn athyglisverðar og þýðingarmiklar staðreyndir sem gefa þarf gaum þegar kemur að uppbyggingu innviða og þjónustu í sveitarfélaginu.
Fundir um hjólabrettarampa
Fyrr á þessu ári fékk bæjarstjóri bréf frá nemendum 4. bekkjar (sem nú eru komnir í 5. bekk) og fyrir nokkru sendu nemendur sem nú eru í 4. bekk bæjarstjóra einnig bréf, þar sem óskað var eftir því að sveitarfélagið setti upp aðstöðu til hjólabrettaiðkunar. Bæjarstjóri ákvað því fyrr í þessari viku að hitta þessa nemendur, og fara yfir málið með þeim. Þeir fundir voru í senn áhugaverðir og gagnlegir. Það er frábært að nemendur grunnskólann skuli láta sig varða störf sveitarstjórnarinnar og finna að það er hægt að hafa áhrif með því að koma fram með málefnaleg rök og vel undirbúið mál.
Að lokum óska öllum góðrar helgar!