Pistill Bæjarstjóra

Fyrri umræða fjárhagsáætlunar
Á fundi bæjarstjórnar í gær, fimmtudaginn 26. október, var fyrri umræða um fjárhagsáætlun næsta árs. Áætlunin sem slík er enn í vinnslu, og voru því einungis helstu stærðir áætlunarinnar tilgreindar við framlagninguna. Bæjarráð mun nú nýta tímann fram að síðari umræðu og vinna endanlega tillögu að fjárhagsáætlun næsta árs og langtímaáætlun næstu þriggja ára þar á eftir. Áætlunin nær jafnt yfir rekstur, sjóðstreymi, fjárfestingar og framkvæmdir. Á framkvæmdahliðinni má gera ráð fyrir að lokið verði við gatnagerð á miðbæjarsvæði, þ.e. síðari áfangi verksins sem framkvæmt var í sumar. Allt lítur út fyrir að öllum lóðum sem koma til úthlutunar á svæðinu í ár verði úthlutað, og að talsverð eftirspurn verði áfram á næsta ári eftir byggingalóðum. Þá er einnig ráðgert að ráðast í framkvæmdir við fráveitukerfi bæjarins, en það er nauðsynlegt ekki síst með fjölgun húsa og auknu álagi á kerfið. Loks er þess að geta að þegar ráðist verður í síðari áfanga gatnagerðar á miðbæjarsvæðinu þarf áhaldahús sveitarfélagsins að víkja, og finna þeirri starfsemi nýja staðsetningu.


Framkvæmdir við stíga
Þrátt fyrir að kominn sé vetur samkvæmt dagatalinu er enn unnið að framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins, enda tíðarfarið einstaklega gott. Á dögunum var efnt til verðkönnunar meðal verktaka, um lagfæringu gamla Stapavegarins, þ.e. frá Stofnfiski upp á Vogastapa. Vegur þessi er aflagður fyrir nokkru, en nú stendur til að gera vandaðan stíg í þessu vegstæði, sem nýtist bæði gangandi og hjólandi vegfarendum. Þar sem landið er í eigu fleiri eigenda en sveitarfélagsins er nú beðið heimildar annarra landeigenda, svo framkvæmdir geti hafist. Vonandi verður það sem allra fyrst, svo unnt verði að ljúka verkinu áður en vetrarveur skella á með fullum þunga.


Ungmennafélagið 85 ára
Ungmennafélagið Þróttur var stofnað þann 23. október 1932, og fagnaði því 85 ára afmæli nú í vikunni. Starfsemi félagsins hefur ávallt skipað ríkan sess í samfélaginu, og haft mikla þýðingu fyrir íbúa sveitarfélagsins. Nú eru iðkaðar þrjár mismunandi íþróttagreinar á vegum félagsins, þ.e. sund, júdó og knattspyrna. Þá hefur félagið einnig endurvakið starfsemi sína á vettvangi leiklistar, sem er kærkomin viðbót við íþróttastarfsemina. Formaður félagsins er Baldvin Hróar Jónsson, framkvæmdastjóri er Marteinn Ægisson. Um leið og ég óska „afmælisbarninu“ til hamingju með 85 ára afmælið sendi ég öllum félagsmönnum góðar óskir um áframhaldandi blómlegt starf á vettvangi félagsins.


Góð heimsókn í Stóru-Vogaskóla
Í síðustu viku heimsótti Hilmar B. Jónsson, matreiðslu-meistari, nemendur Stóru-Vogaskóla. Hilmar hefur starfað sem matreiðslumeistari um árabil, og sinnti m.a. eldamennsku í veislum forsetaembættisins í tíð Vigdísar Finnbogadóttur, um 12 ára skeið. Hilmar sýndi nemendum kúnstina við að elda góðan fiskrétt, og fékk við það aðstoð frá einum nemanda skólans. Góður rómur var gerður að heimsókninni og sýnikennslunni meðal nemenda.


Að lokum
Á morgun, laugardag, er kosið til Alþingis. Kjörstaður okkar er í Stóru-Vogaskóla, og er kjörstaðurinn opinn frá kl. 10:00 – 22:00. Ég hvet alla til að standa vörð um lýðræðið og nýta kosningaréttinn. Það er jafnframt tilvalið að nota tækifærið og koma við í Tjarnarsal milli kl. 13 og 15, á degi félagasamtaka í sveitarélaginu. Þar gefst kjörið tækifæri til að kynna sér fjölbreytta starfsemi frjálsra félagasamtaka sem hér starfa og láta gott af sér leiða.