Pistill bæjarstjóra

Mikil eftirspurn eftir lóðum
Nú um helgina rennur út umsóknarfrestur í fyrstu lotu lóðaúthlutunar á miðbæjarsvæðinu í Vogum. Gatnagerð er að mestu lokið, og voru lóðirnar auglýstar lausar til umsóknar nýlega. Það er skemmst frá því að segja að nú þegar eru komnar umsóknir um allar lóðirnar. Um er að ræða 5 einbýlishúsalóðir, 5 parhúsalóðir (10 íbúðir), 30 fjölbýlishúsalóðir í fimm tveggja hæða fjölbýlishúsum og 40 íbúðir í tveimur tuttugu íbúða fjölbýlishúsum. Alls eru þetta því 85 íbúðir, sem er hlutfallslega mikil fjölgun íbúða í sveitarfélaginu. Samkvæmt úthlutunarreglum verður því dregið úr gildum umsóknum, þegar kemur að úthlutun lóðanna.


Ljósleiðaravæðing í dreifbýli
Á vegum stjórnvalda hefur undanfarin misseri verið starfrækt verkefnið „Ísland ljóstengt“. Markmið verkefnisins er að 99,9% þjóðarinnar eigi kost á 100 MB/s þráðbundinni tengingu árið 2020. Skref í þessa átt var stigið fyrr á þessu ári þegar sveitarfélagið gerði samstarfssamning við Gagnaveitu Suðurlands um uppsetningu s.k. „loftljóss“, þ.e. háhraða, þráðlausri tengingu sem öll heimili og fyrirtæki í dreifbýlinu (Vatnsleysuströnd og Hvassahraun) eiga möguleika á að tengja sig við. Þetta var mikið framfaraskref, og margir sem hafa nýtt sér þennan möguleika. Nú er hins vegar ráðgert að sækja um framlag úr Fjarskiptasjóði í tengslum við verkefnið „Ísland ljóstengt“ og freista þess að stíga skrefið til fulls, þ.e. að ljósleiðaravæða allt dreifbýli sveitarfélagsins. Umsóknarferlið stendur nú yfir, og er unnið að gerð umsóknar sveitarfélagsins. Í fjárhagsáætlunarvinnunni fyrir árið 2018 er gert ráð fyrir mótframlagi vegna þessara framkvæmda, en málin skýrast hins vegar ekki að fullu fyrr en umsóknin hefur verið afgreidd og hversu hárri fjárhæð verður úthlutað.


Fjárveitingar til Suðurnesja
Reykjanesbær hefur nýverið látið vinna áhugaverða samantekt og greiningu á fjárveitingum til ríkisstofnana sem starfræktar eru á Suðurnesjum. Þessi greining er öðrum þræði skoðuð út frá hinni gríðarlegu fjölgun íbúa sem orðið hefur undanfarin misseri í landshlutanum. Í vikunni var boðað til kynningarfundar í Duus-húsum í Reykjanesbæ þar sem niðurstaða greiningarvinnunnar var kynnt. Fjölmenni var á fundinum, og mátti sjá marga frambjóðendur til alþingiskosninga á fundinum. Niðurstaða greiningarinnar er sláandi. Þegar litið er til starfsemi á vegum ríkisvaldsins á Suðurnesjum, hvort heldur sem er vegna heilbrigðisþjónustu, menntamála, málefna aldraðra eða löggæslu, er ljóst að hróplegt ósamræmi er milli fjárveitinga til Suðurnesja borið saman við fjárveitingar til margra annarra landshluta, einkum ef miðað er við fjölda íbúa á svæðinu. Það er því ljóst að framundan er vinna sem felst m.a. í því að ná eyrum fjárveitingavaldsins, og ekki síst ráðuneytanna sem útfæra fjárveitingar að fengnum fjárlagarammanum. Málið varðar hagsmuni allra íbúa Suðurnesja, og því mikilvægt að standa vörð um þessa hagsmuni.


Dagur félagasamtaka
Frístunda- og menningarnefnd hefur ákveðið að endurnýja þá góðu hefð að efna til dags félagasamtaka, þar sem öllum frjálsum félagasamtökum sem starfa í sveitar-félaginu fá vettvang og tækifæri til að kynna starfsemi sína, sem að þessu sinni verður á kjördag, laugardaginn 28. október n.k.
Að lokum
Ég óska öllum góðrar helgar og ánægjulegs vetrarfrís!