Pistill Bæjarstjóra

Framtíð Reykjavíkurflugvallar
Á aðalfundi SSS sem haldinn var í upphafi þessa mánaðar voru samþykktar ýmsar ályktanir er varða hagsmuni landshlutans, þ.á.m. ályktun um samgöngumál. Í þeirri ályktun var drepið á ýmsa þætti er varða samgöngumál, t.a.m. var fjallað um þær hugmyndir er fram hafa komið um hugsanlega færslu innanlagsflugsins frá Reykjavíkurflugvelli og að nýr flugvöllur fyrir núverandi starfsemi þess flugvallar verði byggður í Hvassahrauni. Í ályktuninni var hvatt til þess að Suðurnesjamenn eigi fulltrúa í þeirri vinnu sem fram fer og snýr að skoðun þessara mála. Samgönguráðherra hefur skipað starfshóp um framtíð Reykavíkurflugvallar, en í máli ráðherrans á aðalfundinum kom fram jákvæð afstaða hans til þess sjónarmiðs að Suðurnesjamenn eigi fulltrúa í þeim hóp. Ráðherrann hefur einnig fengið Þorgeir Pálsson, fv. flugmálastjóra, til að skoða sérstaklega öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar, og liggur skýrsla Þorgeirs nú fyrir. Skýrsluna má finna á vef Sveitarstjórnar- og samgönguráðuneytisins. Áhugavert er að rýna í skýrsluna, enda öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar þýðingar-mikið. Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram með afgerandi hætti að út frá öryggissjónarmiðum sé mikilvægt að tveir flugvellir verði á SV-horni landsins, og að eini raunhæfi valkosturinn að mati skýrsluhöfundar fyrir nýjan innanlandsflugvöll á höfuðborgarsvæðinu sé í Hvassa-hrauni. Þó eigi enn eftir að rannsaka ýmsa þætti svo unnt sé að leggja mat á hvort sú staðsetning sé raunhæf eða ekki. Einnig kemur fram að erfitt sé að ráðast í endurbætur á Reykjavíkurflugvelli til að mæta auknum kröfum sem gerðar eru til hans sem varaflugvallar. Að sönnu eru þetta áhugaverðar niðurstöður sem geta haft talsverð áhrif á framtíð Suðurnesja, því samkvæmt niðurstöðum skýrsluhöfundar lítur út fyrir að bæði alþjóðaflugvöllurinn og miðstöð innanlandsflugsins verði á Suðuresjum.
Drifkraftafundur
Um þessar mundir er að hefjast áhugaverð vinna sem felst í greiningu helstu drifkrafta og meginstrauma (e. megatrends), en þeirri greiningu er ætlað að liggja til grundvallar sviðsmyndagreiningar um framtíð atvinnulífs- og innviðauppbyggingar á Suðurnesjum fram til ársins 2040. Verkefnið er á forræði Þróunarfélags Keflavíkur-flugvallar (KADECO), ISAVIA og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Alls verða haldnar þrjár vinnustofur þar sem hinir ýmsu hagsmunaaðilar munu leggja fram sín sjónarmið, auk þess sem send var út könnun til þeirra sem taka þátt í vinnunni þar sem leitað var eftir viðhorfum um það mikilvægasta á vettvangi atvinnulífs og innviðauppbygginga að mati þátttakenda. Greiningarvinna sem þessi er þýðingarmikil í þeirri vinnu sem framundan er m.a. hjá öllum sveitarfélögunum á svæðinu varðandi framtíðarskipulagningu og uppbyggingu þeirra.
Nýtt öldungaráð kjörið
Nú í vikunni fór fram kosning meðal þátttakenda í félagsstarfi eldri borgara, þar sem nýtt öldungaráð var kjörið. Öldungaráðið er kjörið að hausti, og hefur umboð til eins árs í senn. Öldungaráðið lætur sig ýmislegt varða er snýr að hagsmunum eldri borgara í sveitarfélaginu, auk þess sem það á reglubundið samráð við starfsfólk sveitarfélagsins innan málaflokksins. Ég óska nýkjörnu öldungaráði til hamingju með kjörið og óska þeim velfarnaðar í störfum sínum.
Að lokum
Norðurljósin hafa sést ágætlega undanfarið, margir leggja leið sína á Vatnsleysuströnd þegar aðstæður til skoðunar þeirra eru góðar. Ég óska öllum góðrar helgar!