Pistill Bæjarstjóra

Fjármál og haustverk Haustið er annasamur tími hjá þeim sem sinna stjórnsýslu sveitarfélaga. Í gær og í dag stendur yfir árleg fjármálaráðstefna sveitarfélaga, sem Samband íslenskra sveitarfélaga stendur ávallt fyrir á þessum árstíma. Að þessu sinni eru liðlega 400 sveitarstjórnarmenn mættir til leiks, til að hlýða á áhugaverð erindi m.a. um þjóðhagshorfur, ástand í efnahagsmálum, fræðast um hagspá næstu ára o.s.frv. Ráðstefnan er jafnframt mikilvægur vettvangur fyrir sveitarstjórnarfólk af öllu landinu til að efla tengslanet sitt, bera saman bækur sínar og læra hvert af öðru. Tvö málefni auk hinna hefðbundnu eru áberandi í umræðunni á þessari fjármálaráðstefnu, annars vegar boðaðar breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og hins vegar kynning á skýrslu nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Hvoru tveggja áhugaverð og mikilvæg málefni. Að vissu leyti tengjast þessi tvö málefni innbyrðis, því vera kann að með breytingum á reglum um úthlutun jöfnunarframlaga til sveitarfélaga myndist hvati fyrir sum sveitarfélög að huga að sameiningu, nokkuð sem talsvert er fjallað um í skýrslunni um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Það eru því áhugaverðir tímar framundan á vettvangi sveitarstjórnarmála og hjá fjölmörgum sveitarfélögum.
 
Talsverður áhugi á lóðum Um síðustu helgi voru lóðir á miðbæjarsvæðinu auglýstar lausar til úthlutunar. Nú þegar hafa nokkrar umsóknir borist, og talsvert er um fyrirspurnir. Í þessum áfanga verður úthlutað lóðum fyrir 5 einbýlishús, 5 parhús (10 íbúðir), 5 fjölbýlishús með 6 íbúðum hvert og 2 fjölbýlishús með 20 íbúðum hvort. Ef allt er talið saman koma því lóðir fyrir 85 íbúðir til úthlutunar. Það er býsna mikil fjölgun á einu bretti í okkar samfélagi. Það verður því áhugavert að fylgjast með hver eftirspurnin verður og hversu margar umsóknir berast um þessar lóðir. 
 
 Aðalfundur SSS Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hélt aðalfund sinn um síðustu helgi. Fundurinn var að þessu sinni haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Reykjanesbæ. Til fundarins voru boðaðir allir kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnunum á svæðinu, auk framkvæmdastjóra sveitarfélaganna. Margt áhugavert var rætt á fundinum, auk hefðbundinna aðafundastarfa og ályktana. Eitt af því sem kynnt var á fundinum var skýrsla um innviðagreiningu á Suðurnesjum, þar sem finna má heildstætt og gagnlegt yfirlit yfir alla innviði í sveitarfélögunum fimm á svæðinu. Skjal þetta er nú aðgengilegt á heimasíðu Heklunnar, Atvinnuþróunarfélags Suðurnesja á slóðinni www.heklan.is/innvidagreining Margt áhugaverðra upplýsinga er hér að finna, sem vert er að skoða. Á fundinum var einnig talsverð umfjöllun um húsnæðismál, sem nú eru í brennidepli. Í því samband var einnig fjallað um gerð húsnæðisáætlana sveitarfélaga. Í okkar sveitarfélagi er einmitt unnið að gerð slíkrar áætlunar um þessar mundir.
 
Nýtt vatnsból HS Veitur hafa nýlega lokið við tilraunaboranir fyrir nýtt vatnsból sveitarfélagsins, sem gert er ráð fyrir að tekið verði í notkun á næstu tveimur árum eða svo. Nýja vatnsbólið verður staðsett sunnan Reykjanesbrautar, vestan Háabjalla og Snorrastaðatjarna. Um leið og niðurstöður tilraunaborana liggja fyrir munu HS Veitur hefja undirbúning framkvæmda.
 
Að lokum Haustið heldur áfram að vera okkur hliðholt hvað varðar veðurfarið. Ég vona að áfram viðri vel til útivistar um sinn, enda víða enn fallega haustliti að sjá