Pistill Bæjarstjóra

Kalka og Sorpa sameinuð?
Um þessar mundir eru sveitarstjórnarmönnum á Suður-nesjum kynntar niðurstöður skoðunar á þeim möguleika að sameina Sorpeyðingarstöð Suðurnesja (Kölku) og Sorpu bs. Fengnir voru ráðgjafar á vegum Capacent til að skoði kosti og galla slíkrar sameiningar, og hvort hún gæti yfir höfuð talist vænlegur kostur. Nú í vikunni var haldinn eigendafundur hjá Kölku, á þann fund voru boðaðir kjörnir fulltrúar allra fimm sveitarfélaganna á Suðurnesjum, en sveitarfélögin eiga sorpeyðingarstöðina í sameiningu. Á fundinum var greiningarvinna ráðgjafanna kynnt, einnig mætti framkvæmdastjóri Sorpu og kynnti sjónarmið sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, og fulltrúi Umhverfisstofnunar sem fjallaði um málið frá sjónarhóli stofnunarinnar sem veitir starfsemi sorpeyðingarstöðva starfsleyfi. Aðildarsveitarfélögin og stjórn Kölku munu áfram fjalla um málið og ákvarða næstu skref.
Frístunda- og menningarmál
Dagana 2. – 8. október n.k. verður heilsu- og forvarnarvika í öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum. Þetta er í fyrsta sinn sem slík sameiginleg vika er haldin hér í landshlutanum. Reynt verður að höfða til sem flestra íbúa á Suðurnesjum með málefni heilsu- og forvarna að leiðarljósi. Vonir standa til að vikan geti orðið að árlegum viðburði á Suðurnesjum og stuðli þannig að bættri lýðheilsu á svæðinu.
Nýverið var auglýst nýtt starf tómstundafræðings hjá sveitarfélaginu, í kjölfar skipulagsbreytinga í málaflokknum. Nokkrar umsóknir bárust um starfið, og fara ráðningarviðtöl fram þessa dagana. Tómstunda-fræðingi er ætlað að hafa umsjón með og skipuleggja frístunda- og tómstundastarf fyrir íbúa sveitarfélagsins, jafnt unga sem aldna, og á þann hátt brúa bilið milli aldurs-hópanna í samfélaginu. Spennandi tímar framundan.
Þriðja lýðheilsugangan
Lýðheilsugöngurnar á miðvikudögum í septmeber hafa slegið í gegn. Gönguferðir þessar eru skipulagðar í tengslum við 90 ára afmæli Ferðafélags Íslands, sem hefur hvatt sveitarfélög um allt land til að minnast tímamótanna á þennan hátt. Heimamenn í Vogum hafa ekki látið sitt eftir liggja. Þriðja gangan af fjórum var farin s.l. miðvikudag. Í hverri göngu er stuðst við höfuðáttirnar, í fyrstu göngunni var gengið til suðurs, í annari göngunni til vesturs og í þeirri þriðju til norðurs. Í göngu vikunnar var gengið að Bieringstanga og Djúpavogi, og fræðst um eyðibýli milli Voga og Brunnastaðahverfis. Ágæt þátttaka var í göngunni, en þó heldur færri í hinum tveimur fyrstu. Líklegt er að veðrið hafi þar haft sín áhrif. Fjórða og síðasta gangan verður n.k. miðvikudag, þá verður gengið til austurs. Brottför er frá íþróttamiðstöðinni kl. 18. Langtímaspáin gerir ráð fyrir 10 stiga hita, léttskýjuðu og hættu á lítils háttar síðdegisskúrum.
Þróttur kominn í 2. deild
Síðasta umferð Íslandsmótsins í 3. deild knattspyrnu fór fram s.l. laugardag. Fyrir lokaumferðina gátu þrjú lið tryggt sér 2. sætið og þar með sæti í 2. deild að ári. Þróttarar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu sinn leik gegn Reyni í Sandgerði, 5-0. Þar með var ljóst að annað sætið í deildinni var tryggt og að félagið leikur í 2. deild á næstu leiktíð. Það hefur verið frábært að fylgjast með framgangi liðsins undanfarin tvör ár, en það er sá tími sem þeir stöldruðu við í 3. deildinni. Til hamingju Þróttarar!
Að lokum
Í dag, 22. september, eru haustjafndægur. Þá er dagurinn og nóttin því sem næst jafnlöng. Enn viðrar vel til útivistar og um að gera að njóta hauslitanna í náttúrunni. Góða helgi!