Pistill Bæjarstjóra

Fjárhagsáætlunarvinna
Haustið er tími fjárhagsáætlunargerðar. Framundan er að stilla strengina fyrir næsta ár, sem og að leggja línurnar fyrir næstu þrjú ár þar á eftir. Samkvæmt sveitarstjórnar-lögum skal unnin fjögurra ára fjárhagsáætlun á hverju hausti, og hún afgreidd eftir tvær umræður í sveitarstjórn fyrir 15. desember ár hvert. Í næstu viku kemur bæjarráð saman til fyrsta vinnufundar, þar sem unnið verður með heildarmyndina og ekki síst skoðuð þau verkefni sem eru framundan á vettvangi framkvæmda. Í framhaldinu munu síðan stjórnendur sveitarfélagsins hver á sínu sviði vinna að gerð tillögu um rekstur, viðhald og búnaðarkaup. Fjármálaráðstefna sveitarfélaganna er í byrjun október, þar fást mikilvægar upplýsingar um ýmislegt er lýtur að vinnu við gerð fjárhagsáætlunar, forsendum í þjóðarbú-skapnum sem og almennar forsendur hvað varðar verðlag og ýmislegt fleira. Stefnt er að fyrri umræðu um áætlunina á fundi bæjarstjórnar þann 25. október n.k.
Komið að úthlutun lóða
Nú er farið að síga á seinni hluta gatnagerðaframkvæmda á miðbæjarsvæðinu. Glöggir bæjarbúar og vegfarendur geta nú séð að göturnar eru farnar að taka á sig mynd, og það styttist í að lóðirnar verði tilbúnar til úthlutunar. Nú er gert ráð fyrir að lóðirnar verði auglýstar til úthlutunar í næstu viku, en um er að ræða lóðir fyrir einbýlishús, parhús og lítil fjölbýlishús. Miðað við þá miklu eftirspurn sem er í sveitarfélaginu eftir húsnæði má gera ráð fyrir að áhugi á lóðum verði talsverður, ekki síst fyrir fjölbýlishúsalóðir. Nokkrir aðilar hafa þegar lýst yfir áhuga sínum á slíkum lóðum. Þetta verður kærkomin viðbót við húsnæðissamsetninguna í Vogum, því fram til þessa hefur verið skortur sérstaklega á minni íbúðum. Það er einnig viðbúið að á næstu tveimur árum muni íbúum sveitarfélagsins fjölga, til viðbótar við umtalsverða fjölgun þeirra undanfarin tvö ár.
Önnur lýðheilsugangan
Önnur lýðheilsugangan af fjórum fór fram á miðvikudag. Veðrið var prýðilegt, eins og í fyrstu göngunni. Gengið var að Hólmabúð, Kristjánstangi skoðaður, rústir Brekku og kíkt þar í brunninn. Alls tóku um 30 manns þátt í göngunni, þar sem Viktor Guðmundsson miðlaði m.a. af fróðleik sínum um sögu þessara staða. Þriðja gangan verður n.k. miðvikudag, þá verður haldið inn með Vatnsleysuströnd og eyðibýli skoðuð. Í þeirri göngu mun Haukur Aðalsteinsson miðla af fróðleik sínum, en hann er einn helsti sérfræðingur okkar um útgerð á fyrri árum og öldum. Sem stendur gerir langtímaspáin ráð fyrir rigningu, en það getur átt eftir að breytast.
Knattspyrnan á tímamótum
Síðasta umferð Íslandsmótsins í 3.deild knattspyrnu er á morgun, laugardag. Það ríkir heldur betur spenna fyrir lokaumferðina. Knattspyrnufélagið Kári frá Akranesi hefur þegar tryggt sér þátttökurétt í 2. deild að ári, en enn geta þrjú lið tryggt sér annað sæti í deildinni og þar með einnig þátttökurétt í 2. deild á næstu leiktíð. Eitt þessara liða er lið UMF Þróttar í Vogum. Með sigri á morgun tryggir liðið sér annað sætið í deildinni í ár, og þar með hinn eftirsótta keppnisrétt í 2. deild að ári. Árangur liðsins er frábær, ekki síst í ljósi þess að liðið leikur einungis annað árið sitt í 3. deildinni, eftir að hafa verið í neðstu deild árin þar á undan. Leikurinn fer fram kl. 14 á Vogabæjarvellinum, hvatning heimamanna er þýðingarmikil og því allir sem vettlingi geta valdið hvattir til að mæta og styðja við bakið á liðinu.
Að lokum
Hann þykknar upp og fer að rigna um helgina. Hitastigið er hins vegar enn gott, miðað við árstíma. Góða helgi!