Ársreikningur 2018
Á fundi bæjarráðs í vikunni voru drög að ársreikningi bæjarsjóðs og stofnana hans fyrir árið 2018 lögð fram til kynningar, en vinnu við gerð hans hefur staðið yfir undanfarnar vikur. Það er ánægjulegt að segja frá því að niðurstöður rekstrarreiknings ársins 2018 eru góðar, og resktrarafkoman umfram væntingar. Heildarskatttekjur ársins var liðlega 1,2 milljarður króna, en rekstrar-afgangurinn tæpar 50 m.kr. Launakostnaður er sem fyrr stærsti eintaki kostnaðarliður í rekstri sveitarfélagsins, en laun og launatengd gjöld námu alls tæpum 690 m.kr. á árinu. Efnahagsreikningurinn ber þess merki að fjárhagur sveitarsjóðs telst vera „heilbrigður“, en langtímaskuldir sveitarsjóðs hafa farið lækkandi undanfarin ár. Samkvæmt lykiltöluyfirliti ársreikningsins er skuldaviðmið skv. reglugerð nú komið niður fyrir 60%, sem telst vera mjög viðunandi. Leyfilegt hámark er 150% af reglubundnum tekjum sveitarsjóðs. Í ársreikningnum má finna ýmsar áhugaverðar upplýsingar um eitt og annað er snýr að rekstri sveitarfélagsins. Ársreikningurinn verður tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn á næsta bæjarstjórnarfundi, sem verður miðvikudaginn 27. mars n.k., og birtur á vef sveitarfélagsins í kjölfarið. Síðari umræða um reikninginn verður á aprílfundi bæjarstjórnar, sem er fyrirhugaður miðvikudaginn 24. apríl n.k.
Menningarmiðstöð
Á fundi bæjarstjórnar í janúar var borin upp tillaga þess efnis að kannað yrði með kaup á íbúðarhúsi því sem stendur í Aragerði, sem nú er til sölu. Var lagt til að kannað yrði hvort húsið gæti nýst sem fræðasetur og menningarmiðstöð. Tillögunni var vísað til bæjarráðs. Bæjarráð hefur nú fjallað um málið og komist að þeirri niðurstöðu, að falla frá hugmyndum um kaup á fasteigninni. Ekkert verður því af þessum áformum nú.
Þingsályktunartillaga - Suðurnes
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Suðurkjördæmis, mælti nýlega fyrir þingsályktunartillögu á Alþingi um stöðu sveitarfélaganna á Suðurnesjum, en flutningsmenn hennar eru flestallir þingmenn kjördæmisins. Lagt er til að ríkisstjórnin feli starfshóp fulltrúa sveitarfélaga á Suðurnesja ásamt sérfræðingum úr nokkrum fagráðuneytum sem vinni tímasetta aðgerðaráætlun um hvernig efla megi þjónustu ríkisins við íbúa á Suðurnesjum og mæta mikilli fólksfjölgun þar. Tillagan var í kjölfarið send sveitarfélögunum á Suðurnesjum til umsagnar, og tók bæjarráð hana til umfjöllunar á fundi sínum nú í vikunni. Bæjarráð fagnaði framkominni þingsályktunartillögu og tók undir mikilvægi þess að ríkisvaldið standi vel að fjármögnun stofnanna sinna á svæðinu, þannig að fjárveitingar taki mið af fordæmalausri íbúafjölgun svæðisins. Umsögnin hefur nú verið send til Alþingis, en tillagan er til umfjöllunar í nefnd áður hún kemur að nýju til kasta þingsins.
Safnahelgin
Nú um helgina er komið að hinni árlegu Safnahelgi á Suðurnesjum. Margt áhugavert er í boði, jafnt í Sveitarfélaginu Vogum sem og í öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum. Dagkráin hér verður m.a. í sundlauginni, bókasafninu, skólaminjasafninu í Norðurkoti og í Tjarnarsal. Hina fjölbreyttu dagskrá sem er í boði má sjá alla á heimasíðu Safnahelgarinnar. Ég hvet alla til að kynna sér það sem í boði er, enda margt fróðlegt og áhugavert á boðstólnum fyrir alla fjölskylduna.
Að lokum Ég óska öllum konum til hamingju með alþjóðlegan baráttudag kvenna. Góða safnahelgi!
VOGAR - HRAÐFERÐÁbyrgðarmaður: Ásgeir Eiríksson asgeir@vogar.is 8.3.2019 7.árg.7.tbl.
Innihald þessa pistils endurspeglar á engan hátt skoðanir ritstjóra, og er einungis ætlað að þjóna því hlutverki að miðla fréttum af því sem efst er á baugi hverju sinni á
vettvangi sveitarfélagsins sem og að halda til haga gagnlegum upplýsingum um starfsemina á vettvangi sveitarfélagsins.