Rekstur bæjarsjóðs í jafnvægiAð afloknum 8 mánuðum er rekstur bæjarsjóðs í góðu jafnvægi, bæði hvað varðar tekjur og gjöld. Fjárhagsáætlun ársins stenst í öllum megin dráttum, enn sem komið er a.m.k. Segja má að á tekjuhliðinni hafi ríkt óvissa um útsvarstekjurnar, ekki síst í ljósi þess að íbúum hefur farið fjölgandi og talsverðar kjarabætur verið á vinnumarkaði. Það er því ánægjulegt að sjá að þrátt fyrir all bjartsýna tekjuspá gengur hún vel eftir, og eru útsvarstekjurnar raunar lítillega hærri en áætlunin gerði ráð fyrir. Á útgjaldahliðinni ríkir einnig gott jafnvægi, þótt frávik séu á einstökum liðum eins og gengur. Þegar á heildina er litið er sem sagt ágætis jafnvægi á rekstri bæjarsjóðs og hann í nokkuð góðu samræmi við fjárhagsáætlun ársins.
Tónlistarkennsla grunnskólansAlexandra Chernyshova tók til starfa sem tónmenntakennari við Stóru-Vogaskóla í upphafi skólaársins. Alexandra er hámenntuð á sviði tónlistar, hefur loið M.Mus frá Listaháskóla Íslands, M.Ed. frá Háskólanum í Kiev, meistaragráðu í óersusöng og söngkennaraprófi frá Odessa tónlistarakademíunni og Glier High Music College og sömuleiðis BA frá National Kiev Lingustic University. Auk hefðbundinnar tónmenntakennslu í skólanum mun Alexandra starfrækja skólakór fyrir nemendur í 3. – 7. bekk, sem og kenna áhugasömum hljóðfæraleikurum að spila í „bílskúrshljómsveit“, þar sem áhersla verður lögð á að leiðbeina nemendum í að spila á sitt hljóðfæri auk þess að kenna / leiðbeina nemendum að spila í hljómsveit. Það er sannarlega góður liðsauki fólginn í starfskröftum Alexöndru sem gæðir tónlistarkennsluna nýju og fjölbreyttara lífi í grunnskólanum. Það verður spennandi að hlýða á afraksturinn þegar líða tekur á skólaárið.
Lýðheilsugöngurnar hafnarFyrsta lýðheilsugangan af fjórum var farin miðvikudaginn 6. september, í blíðskapaveðri. Góð þáttaka var í göngunni. Gengið var eftir Vogaafleggjara suður fyrir Reykjanesbraut að Hrafnagjá. Næsta ganga verður n.k. miðvikudag, þá verður gengið til vesturs að Vogavík og Hólmabúð. Samkvæmt langtímaveðurspá er veðurútlit gott á miðvikudag, spáð er hæglætisveðri og sólskini. Göngurnar eru skipulagðar í samstarfi við Ferðafélag Íslands, sem um þessar mundir fagnar 90 ára afmæli sínu.
Dagur bókasafnsins
Bókasafnsdagurinn verður haldinn hátíðlegur í dag, föstudaginn 8. september. Bókasafnsdagurinn í ár er tileinkaður lýðræði og hlutverki bókasafna í lýðræðissamfélögum. Markmið bókasafnsdagsins er annars vegar að vekja athygli á mikilvægi bókasafna í lýðræðissamfélagi og hins vegar að vera hátíðsisdagur starfsmanna safnanna. Bókasafnsdagurinn er haldinn á alþjólegum degi læsis, 8. september. Sameinuðu þjórirnar gerðu þennan dag að alþjóðadegi læsis árið 1965. Á þessum degi er fólk, hvar sem það er í heiminum, hvatt til þess að lesa upp, segja sögur, fara með ljóð eða á annan hátt nota tungumálið til ánægjulegra samskipta. Lestrarfélagið Baldur er bókasafn okkar í Vogunum – ég hvet alla til að líta þar við og notfæra sér þjónustuna. Til hamingju með bókasafnsdaginn!
Að lokumHaustveðrið hefur leikið við okkur undanfarna daga, og vonandi verður svo áfram. Það viðrar vel til útiveru, sem ég vona svo sannarlega að sem flestir hafi tök á að njóta. Ég óska öllum góðrar helgar!