Pistill bæjarstjóra

Af vettvangi bæjarstjórnar
Reglubundinn fundur bæjarstjórnar var haldinn nú í vikunni. Fundargerðir nefnda voru teknar til afgreiðslu, undir þeim lið var m.a. frumvarp um lækkun kosningaaldurs til sveitarstjórna tekið til umfjöllunar. Bæjarstjórn ályktaði að hún teldi eðlilegt að lögræðisaldur og kosningaaldur héldust í hendur, og lagði því til að kosningaaldur stæði óbreyttur um mundi áfram miðast við 18 ár. Aðalverkefni fundarins var hins vegar að fjalla um og afgreiða breytingu á samþykktum um stjórn sveitarfélagsins. Í þeirri breytingu fólst sú megin breyting að Umhverfis- og skipulagsnefnd af aflögð í núverandi mynd, en í hennar stað settar á stofn tvær sjálfstæðar nefndir, Umhverfisnefnd og Skipulagsnefnd. Að aflokinni afgreiðslu bæjarstjórnar á breytingu samþykktanna voru erindisbréf hinna nýju nefnda samþykkt. Að því loknu var síðan kosið í nefndirnar. Hinar nýju nefndir munu nú í kjölfarið hefja störf, og sinna þeim mikilvægu málaflokkum sem undir þær heyra.

Broskarlar í umferðinni
Nú í vikunni voru tvö hraðaviðvörunarskilti sett upp í Vogum. Skilti sem þessi eru orðin nokkuð algeng víða, og er ætlað að hvetja ökumenn til að virða hámarkshraðann. Í þéttbýlinu í Vogum er hámarkshraði 30 km/klst, sem ökumönnum gengur misvel að virða, sér í lagi þegar komið er inn í bæinn og leyfður hámarkshraði lækkar úr 70 í 30 km/klst. Ef ekið er umfram leyfilegan hámarkshraða birtist rauður „fýlukarl“ á skjánum, en sé ekið innan hámarkshraðans birtist grænn, vingjarnlegur broskarl á skjánum. Það er því um að gera fyrir ökumenn að virða hámarkshraðann, uppskera vingjarnlegan broskarl og um leið auka öryggi gangandi vegfarendi, ekki síst barna og ungmenna.

Heimsmarkmið SÞ
Í síðasta mánuði var efnt til viðamikillar kynningar fyrir sveitarstjórnarfólk á öllu landinu um Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna. Á vef stjórnarráðsins má m.a. lesa að „heimsmarkmiðin eru framkvæmdaáætlun í þágu mannkyns, jarðarinnar og hagsældar. Með henni er einnig leitast við að stuðla að friði um gjörvallan heim og þar með auknu frelsi“. Heimsmarkmiðin eru 17 talsins, og snerta á ýmsum mikilvægum þáttum. Eitt markmiðanna snýr t.a.m. að heilbrigðu líferni, en sveitarfélagið vinnur einmitt um þessar mundir að innleiðingu s.k. heilsueflandi samfélags í samstarfi við embætti Landlæknis. Það verkefni er unnið með beinni skírskotun til þriðja heimsmarkmiðsins, sem kveður á um heilbrigt líf og vellíðan allra frá vöggu til grafar. Hugmyndafræðin sjálf er þróuð af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni
.
Sameining Kölku og Sorpu?
Stjórn Kölku, Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja, bauð öllum kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum aðildarsveitar-félaganna til kynningarfundar í vikunni. Tilefnið var kynning á skoðun þess valkosts að sameina Kölku og Sorpu í eitt félag, sem mundi verða í eigu 10 sveitarfélaga. Um er að ræða sveitarfélögin fjögur á Suðurnesjum, og sveitarfélögin sex á höfuðborgarsvæðinu. Að mörgu eru að hyggja í þessu sambandi. Sveitarfélögin á Suðurnesjum munu nú skoða valkostinn nánar í samstarfi við sjálfstætt starfandi ráðgjafa, sem þekkir vel til málaflokksins.

Að lokum
Marsmánuður er runninn upp, með tilheyrandi birtustigi. Sólarlag þessa dagana er nú um kl. 19, það munar aldeilis um það. Ég óska öllum góðrar helgar og vona að hún verði ykkur ánægjuleg.
Ábyrgðarmaður: Ásgeir Eiríksson asgeir@vogar.is 1.3.2019 7.árg.6.tbl.
Innihald þessa pistils endurspeglar á engan hátt skoðanir ritstjóra, og er einungis ætlað að þjóna því hlutverki að miðla fréttum af því sem efst er á baugi hverju sinni á
vettvangi sveitarfélagsins sem og að halda til haga gagnlegum upplýsingum um starfsemina á vettvangi sveitarfélagsins

Ábyrgðarmaður: Ásgeir Eiríksson asgeir@vogar.is 1.3.2019 7.árg.6.tbl.
Innihald þessa pistils endurspeglar á engan hátt skoðanir ritstjóra, og er einungis ætlað að þjóna því hlutverki að miðla fréttum af því sem efst er á baugi hverju sinni
á vettvangi sveitarfélagsins sem og að halda til haga gagnlegum upplýsingum um starfsemina á vettvangi sveitarfélagsins.