Íbúafundur um ferðaþjónustu
Fyrr í vikunni efndu Markaðsstofa Suðurnesja og Reykjanes Unesco Global Geopark til opins fundar um ferðamál í Vogum. Sams konar fundir eru einnig haldnir þessa dagana í öðrum sveitarfélögum hér á svæðinu. Á fundinum var staða ferðaþjónustunnar rædd og farið yfir þau verkefni sem eru framundan í þessari vaxandi atvinnugrein. Fundinn var vel sóttur. Umræður voru gagnlegar og fjölbreyttar, og greinilegt að heilmikil gróska er í málaflokknum hér í sveitarfélaginu. Því til staðfestingar má m.a. nefna að tvö ferðaþjónustufyrirtæki hösluðu sér völl á síðasta ári, Vogasjóferðir og Tjaldsvæðið í Vogum. Fleiri rótgróin ferðaþjónustu-fyrirtæki eru hér fyrir, nægir þar t.d. að nefna Hótel Voga, Gamla Pósthúsið o.fl. Það leynir sér ekki að miklir möguleikar og mörg tækifæri leynast innan ferðaþjónustu og því spennandi að fylgjast með þróuninni á næstunni.
Íbúatölfræði
Um síðustu áramót bjuggu 1.287 íbúar í sveitarfélaginu. Í upphafi árs 2018 voru þeir 1.266 talsins, okkur fjölgaði því um 21 á árinu. Leiða má líkum að því að hamlandi þáttur frekari fjölgun íbúa sé skortur á húsnæði, enda mikil eftirspurn bæði eftir húsnæði til kaups og ekki síður eftir leiguhúsnæði. Tæp 20% íbúanna eru með erlent ríkisfang. Þar eru pólskir ríkisborgarar fjölmennastir, þeir eru liðlega 55% íbúa með erlent ríkisfang. Næstir þar á eftir eru íbúar frá Litháen og Lettlandi. Þessar þrjár þjóðir eru rétt tæplega 80% þeirra erlendu ríkisborgara sem hér búa. Íbúar í sveitarfélaginu eru hins vegar alls með 22 mismunandi ríkisföng, auk íslenskra ríkisborgara. Það má því með sanni segja að við státum af miklum fjölbreytileika og mannauði í sveitarfélaginu okkar.
Rafmagnsleysi
Undanfarnar vikur og mánuði hefur orðið rafmagnslaust hér í sveitarfélaginu, oftar en góðu hófi gegnir að mati margra. Svo virðist sem ástæðurnar séu jafn mismunandi eins og þær eru margar. Í þessu sambandi er vert að benda fólki á að ekki er sjálfgefið að tryggingar bæti skaða sem kann að verða á tækjum og rafmagnsbúnaði, því er nauðsynlegt að ganga úr skugga um hvort tryggingar fólks innifeli bætur fyrir slíkt tjón. Bæjarráð fjallaði um málið á fundi sínum í vikunni, og samþykkti að óska eftir skýringum á þessum hvimleiða vanda, frá HS Veitum.
Suðurnesjalína 2
Frá því dómur féll í Hæstarétti þar sem framkvæmdaleyfi var ógilt og dæmt að umhverfismatið sem unnið var hefði verið ófullnægjandi, ákvað Landsnet að setja á stofn verkefnaráð, þar sem vinnsla nýs umhverfismats var unnin með víðtæku samráði við hina ýmsu hagaðila. Nú hefur Landsnet unnið s.k. valkostagreiningu fyrir Suðurnesjalínu 2, og hefur sent Skipulagsstofnun drög að frummatsskýrslu. Gert er ráð fyrir að rýni Skipulags-stofnunar taki nokkrar vikur. Að því loknu mun Landsnet bregðast við ábendingum og uppfæra skipulagsdrögin, áður en þau verða send í lögbundið umsagnarferli. Fulltrúar Landsnets komu til fundar fyrir síðasta fund bæjarstjórnar, og kynntu frummatsdrögin. Bæjarstjórn mun væntanlega funda með landeigendum á næstunni, þar sem sameiginlega verður fjallað um drögin.
Að lokum
Febrúar er senn á enda. Þorraþræll er á morgun, þá endar Þorri. Konudagur á sunnudag, þá byrjar Góa. Til hamingju með daginn konur – góða helgi öll!
Ábyrgðarmaður: Ásgeir Eiríksson asgeir@vogar.is 22.2.2019 7.árg.5.tbl.
Innihald þessa pistils endurspeglar á engan hátt skoðanir ritstjóra, og er einungis ætlað að þjóna því hlutverki að miðla fréttum af því sem efst er á baugi hverju sinni á
vettvangi sveitarfélagsins sem og að halda til haga gagnlegum upplýsingum um starfsemina á vettvangi sveitarfélagsins.