FrístundastyrkurÍ fjárhagsáætlun ársins 2019 er gert ráð fyrir fjárveitingu í frístunda- og heilsustyrk, sem annars vegar er ætlaður börnum 18 og yngri og hins vegar einstaklingum 67 ára og eldri. Hér er því brotið blað með því að eldri borgarar geta í fyrsta sinn fengið niðurgreiddan kostnað vegna skipulagðar íþróttastarfsemi, árskorts í sund, líkamsrækt o.s.frv. Úthlutunarreglurnar hafa verið birtar á heimasíðu sveitarfélagsins, og má sjá með því að fylgja þessum hlekk. Ég vek einnig athygli á því að reglurnar gilda fyrir öll börn 18 ára og yngri, þ.m.t. börn á leikskólaaldri. Sótt er um frístundastyrkinn í gegnum íbúagátt sveitar-félagsins, en hlekkur á gáttina er á heimasíðu sveitarfélagsins,
www.vogar.isDeiliskipulag í GrænuborgSíðla árs 2017 urðu eigendaskipti á því landsvæði sem kennt hefur verið við Grænuborg, svæði sem er rétt norðan við íþróttasvæðið og Norður-Voga. Þar var á sínum tíma hafist handa við undirbúning gatnagerðar, þar sem rísa átti myndarleg íbúðabyggð. Þau áform fóru í biðstöðu, og síðan þá hefur svæðið staðið óbreytt. Nýir eigendur hafa í hyggju að ráðast í myndarlega uppbyggingu á þessu svæði á næstu 10 árum. Á síðasta ári var ráðist í breytingu á gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið. Tillagan fór því næst í hefðbundið umsagnarferli. Að loknu umsagnarferlinu og að teknu tilliti til ýmissa athugasemda sem fram komu var endurskoðuð deiliskipulagstillaga síðan samþykkt og í kjölfarið staðfest af Skipulagsstofnun. Deiliskipulagið hefur nú verið birt í Stjórnartíðindum og þar með öðlast gildi. Það hillir því undir að framkvæmdir á Grænuborgarsvæðinu hefjist að nýju eftir langt hlé. Á vefsíðunni www.graenabyggd.is má sjá upplýsingar um uppbyggingaverkefnið.
Undirbúningur safnahelgar
Hin árlega safnahelgi á Suðurnesjum verður helgina 9. - 10. mars n.kr. Öll söfn á Suðurnesjum opna þá dyr sínar fyrir gesti og gangandi, og er aðgangur ókeypis á söfnin þessa helgi. Daníel Arason, menningarfulltrúi Sveitarfélagsins Voga hefur tekið þátt í undirbúnings-vinnunni með starfsfélögum sínum í hinum sveitar-félögunum á svæðinu, og miðar undirbúningi vel áfram. Nú hefur Daníel sett fram þá skemmtilegu hugmynd að auglýsa eftir “söfnum” meðal íbúa sveitarfélagsins, t.d. pennum, servíettum eða hvaðeina sem fólk kann að luma á. Tjarnarsalur verður tekinn til þessara nota á Safnahelgi, en einnig verður dagskrá í bókasafninu sem vert er að gefa gaum. Dagskrá Safnahelgar verður birt á heimasíðu sveitarfélagsins tímanlega, og um leið og hún liggur fyrir. Ég hvet áhugasama til að hafa samband við Daníel ef einhverjir luma á eða vita um áhugaverða muni eða söfn í einkaeigu, sem gætu átt erindi á þessa “sýningu”. Netfang hans er
daniel@vogar.isNý lögreglusamþykktNú hillir undir að ný lögreglusamþykkt taki gildi fyrir öll sveitarfélögin á Suðurnesjum. Þar með verða lögreglusamþykktir allra fjögurra sveitarfélaganna á Suðurnesjum samræmdar. Þetta mun auðvelda lögreglunni mjög að sinna löggæsluverkefnum, þar sem ekki þarf að hafa áhyggjur af því að einstök atriði lögreglusamþykktanna séu mismunandi, heldur gildi eitt og það sama í öllum landshlutanum.
Að lokum óska ég ykkur öllum góðrar helgar, með von um að þið njótið hennar vel.