Pistill Bæjarstjóra

Fjárhagsáætlun 2018
Bæjarstjórn kom til fundar í vikunni, reglubundinn fundartími er síðasti miðvikudagur hvers mánaðar. Á þessum fundi var meginverkefnið síðari umræða um fjárhagsáætlun næstu fjögurra ára, þó með mestri áherslu á áætlun næsta árs. Bæjarráð hefur fundað nokkrum sinnum frá því fyrri umræðan fór fram í lok október, og fjallað um einstök atriði áætlunarinnar. Góð sátt ríkti meðal bæjarráðsmanna, sem leiddi til að áætlunin var samþykkt samhljóða með öllum greiddum atkvæðum í bæjarstjórn. Áætlunin 2018 einkennist öðrum þræði af innviðauppbyggingu í sveitarfélaginu, enda fjölgar hér íbúum og stöðug eftirspurn er eftir húsnæði. Á næsta ári verður lokið við gatnagerð á miðbæjarsvæði, og nýjum lóðum úthlutað til íbúðabygginga til viðbótar við þær lóðir sem úthlutað var á því svæði nú á haustmánuðum. Þá verður einnig ráðist í áframhaldandi uppbyggingu fráveitukerfis bæjarins, í takt við kröfu um aukin afköst kerfisins vegna fjölgunar íbúa. Nýtt áhaldahús sveitarfélagsins mun rísa á árinu, enda það gamla orðið lélegt auk þess sem það þarf að víkja vegna gatnagerðar á miðbæjarsvæði. Áfram verður unnið að endurnýjun eldri gatna, og ljósleiðari verður lagður í dreifbýli sveitarfélagsins í tengslum við verkefnið „Ísland ljóstengt 2018“. Þá verður unnið að stígagerð á Vogastapa. Það má því með sanni segja að næsta ár einkennist af miklum framkvæmdum. Rekstur sveitarfélgasins verður áfram réttu megin við strikið, taka þarf hófleg ný lán vegna framkvæmdanna en mikilvægt að halda því til haga að skuldahlutfall sveitarfélagsins verður áfram innan allra viðmiðunarmarka og skuldsetningin því vel viðráðanleg fyrir sveitarsjóð. Það má með sanni segja að bjart sé yfir framtíð Sveitarfélagsins Voga, á næstu árum má búast við áframhaldandi vexti samfélagsins og fjölgun íbúa, með tilheyrandi uppbyggingu innviða og áhugaverðum tímum.


Ferðamönnum fjölgar enn
ISAVIA kynnit í vikunni farþegaspá fyrir Keflavíkurflugvöll árið 2018. Spáin gerir ráð fyrir að fjöldi farþega sem fara um völlinn á næsta ári rjúfi 10 miljón farþega múrinn í fyrsta skipti í sögu flugvallarins. Mesta fjölgun verður meðal skiptifarþega, en komu- og brottfararfarþegum mun einnig fjölga, þótt í minna mæli sé miðað við undanfarin ár. Öll þessi fjölgun kallar á mikla fjölgun nýrra starfa, en spáin gerir ráð fyrir að ný, bein störf á árinu 2018 verði 1.319 talsins. Næstu ár þar á eftir bætast heldur færri ný störf við á hverju ári, en sé tekið mið af farþegaspánni má gera ráð fyrir að fjöldi beinna starfa á Kefavíkurflugvelli árið 2040 verði liðlega 20 þúsund! Til samanburðar var fjöldi starfa árið 2013 liðlega 3 þúsund. Þessi vöxtur mun hafa mikil áhrif á Suðurnesin, og þar með okkar sveitarfélag.


Listviðburður í Hörpu
Kór Stóru-Vogaskóla mun taka þátt í sýningunni „Ævintýrin um norðurljósin“ sem sýnd verður í Hörpu á morgun, laugardag. Sýningin er sambland af óperu og ballet fyrir börn og fullorna, eftir Alexöndru Chernyshovu, sem er tónmenntakennari við skólann. Sérlega ánægjulegt tækifæri sem kór skólans fær – ég óska öllum góðs gengis og góðrar skemmtunar!


Nýr salur björgunarsveitarinnar
Björgunarsveitin Skyggnir vígir formlega nýjan sal í húsakynnum sínum á morgun, laugardag, og býður öllum að líta við kl. 14 – 16 í kaffi og meðlæti.


Að lokum óska ég öllum góðrar helgar og aðventu!