Vöxtur Suðurnesja
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar lét fyrr í haust vinna samantekt um fjárframlög ríkisvaldsins til stofnana sinna á Suðurnesjum. Á opnum fundi sem haldinn var þann 19. október s.l. var kynnt niðurstaða greiningar á framlögum ríkisins til landshlutans, og er óhætt að segja að niðurstöðurnar hafi verið sláandi. Fólksfjölgun hér á Suðurnesjum er fordæmalaus um þessar mundir, íbúum hefur fjölgað um ríflega 5 þúsund manns á undanförnum 7 – 8 árum. Gera má ráð fyrir áframhaldandi vexti, ekki síst í ljósi áætlana um aukin fjölda farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll á næstu árum, og öllum þeim fjölda nýrra starfa sem munu koma til vegna þess. Slíkum vexti fylgir mikið álag á alla opinbera þjónustu, hvort heldur hún er veitt af sveitarfélaginu eða ríkisvaldinu.
Í kjölfar þessarar samantektar ákváðu sveitarfélögin á svæðinu að taka höndum saman og fylgja málinu eftir, sem hófst með því að fundað var með fulltrúum fjármálaráðu-neytisins. Síðan þá hefur verið fundað með Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, sem og Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Á næstunni verður einnig fundað með fulltrúum Dómsmálaráðuneytisins. Auk framkvæmdastjóra sveitarfélaganna og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sitja forsvarsmenn þeirra ríkisstofnana á svæðinu sem í hlut eiga hverju sinni fundina, þar sem farið er yfir stöðuna og vakin athygli á þróuninni á svæðinu og þeim fjárveitingum sem stofnanirnar fá til að reka starfsemi sína.
Verkefnaráð Suðurnesjalínu 2
Landsnet hf. hefur nú fengið tilnefningar í verkefnaráð sem senn tekur til starfa vegna vinnslu nýs umhverfismats fyrir Suðurnesjalínu 2. Fyrsti fundur verkefnaráðsins verður í næstu viku, og verða á þeim fundi lögð drög að vinnunni framundan.
Af vettvangi bæjarstjórnar
Bæjarstjórn fundar í næstu viku. Aðalverkefni þess fundar verður síðari umræða og afgreiðsla fjárhagsáætlunar næsta árs. Bæjarráð hefur unnið ötullega að gerð áætlunarinnar undanfarnar vikur, þar sem fjallað hefur verið um jafnt tillögu til rekstraráætlunar sem og þær framkvæmdir sem ráðast á í á næsta ári. Tillagan gerir nú ráð fyrir að ljúka gatnagerð á miðbæjarsvæðinu, en á þessu ári var ráðist í fyrri hluta þess verks. Áfram verður unnið að endurnýjun gatna, líkt og gert hefur verið undanfarin ár. Fundur bæjarstjórnar verður haldinn miðvikudaginn 29. nóvember n.k., og er öllum opinn.
Sameiginleg lögreglusamþykkt
Undanfarnar vikur og mánuði hefur sameiginlegur starfshópur sveitarfélaganna á Suðurnesjum ásamt lögreglustjóra unnið að undirbúningi samræmdrar lögreglusamþykktar fyrir öll sveitarfélögin í lands-hlutanum. Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga hefur nú samþykkt þessi drög fyrir sitt leyti. Þegar samþykki allra sveitarfélaganna liggur fyrir verður hin sameiginlega lög-reglusamþykkt send til staðfestingar hjá viðkomandi ráðuneyti, og öðlast síðan gildi að því loknu eftir að hún hefur verið birt í Stjórnartíðindum. Samræmd lögreglusamþykkt fyrir allt svæðið mun auðvelda lögreglunni löggæslustörf, auk þess sem það er kostur að sama lögreglusamþykkt gildi fyrir allan landshlutann.
Að lokum
Í dag er sléttur mánuður til jóla, aðventan hefst eftir rúma viku. Nú er innan við mánuður þar til daginn tekur að legja að nýju, hægt er að gleðjast af minna tilefni! Ég óska öllum góðrar helgar.