Pistill bæjarstjóra

Skólaþing sveitarfélaga
Samband íslenskra sveitarfélaga stóð fyrir árlegu Skólaþingi nú í vikunni. Á þessum þingum (sem standa í einn dag) eru flutt nokkur áhugaverð erindi um ýmislegt er lýtur að skólastarfi. Sveitarfélögin verja lang stærstum hluta útgjala sinna til fræðslu- og uppeldismála, og því brýnt að þessi mikilvægi og umfangsmikli málaflokkur fái verðskuldaða athygli sveitarstjórnarmanna. Þingið var vel sótt og margt áhugavert kom fram. Auk áhugaverðra fyrirlestra um hin fróðlegustu málefni voru umræðustjórar á öllum borðum, þar sem þátttakendum gafst kostur á að fjalla um tilgreindar spurningar er sneru að meginumfjöllunarefni þingsins. Fyrir áhugasama má nálgast upptökur af fyrirlestrum ásamt aðgangi að glærukynningum fyrirlesara á vefsíðu sambandsins http://www.samband.is/verkefnin/skolamal/skolathing-og-malstofur/skolathing-2017. Það er alveg þess virði að gefa sér tíma í að renna yfir þessi áhugaverðu erindi og kynningar.


Dómsuppkvaðning
Í vikunni féll dómur í Héraðsdómi Reykjaness, í máli sem var höfðað á hendur sveitarfélaginu og Ísaga ehf. Tilefni málshöfðunarinnar var breyting á deiliskipulagi á lóð Ísaga ehf., ásamt útgáfu sveitarfélagsins á byggingarleyfi fyrir verksmiðjunni sem nú er risin og verður tekin í notkun síðar í vetur. Málshöfðendur sættu sig ekki við að gerð væri breyting á deiliskipulagi umræddrar lóðar, sem fól í sér leyfi til að reisa hærri byggingu en almennt gilti á svæðinu. Áður en málið var höfðað hafði Úskurðarnefnd auðlinda- og umhverfismála kveðið upp úrskurð í kjölfar kæru sömu aðila og höfðuðu málið, þar sem einnig var fallist á öll sjónarmið sveitarfélagsins varðandi deiliskipulagsbreytinguna. Samkvæmt niðurstöðu dómsins er sveitarfélagið sýknað af kröfum stefnenda, og stendur því deiliskipulagsbreytingin óbreytt ásamt byggingarleyfi Ísaga ehf.


Þingmenn Suðurkjördæmis
Kosið var til Alþingis þann 28. október s.l. Í kjördæmi okkar, Suðurkjördæmi, eru alls 10 þingmenn http://www.althingi.is/thingmenn/kjordaemi/sudurkjordaemi/. Kjördæmið er býsna víðfemt, nær allt frá Vogum í vestri austur til Hafnar í Hornafirði. Fyrsti þingmaður kjördæmisins er Páll Magnússon. Tveir nýjir þingmenn í Suðurkjördæmi náðu kjöri í kosningunum, þeir Birgir Þórarinsson og Karl Gauti Hjaltason. Birgir er búsettur í Sveitarfélaginu Vogum og átti á sínum tíma sæti í sveitarstjórn hér. Af þingi féllu þær Unnur Brá Konráðsdóttir og Jóna Sólveig Elínardóttir. Auk þeirra sem að framan eru taldir eru þingmenn kjördæmisins þau Sigurður Ingi Jóhannsson, Ásmundur Friðriksson, Ari Trausti Guðmundsson, Oddný G. Harðardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Smári McCarthy. Ég óska öllum þingmönnum kjördæmisins velfarnaðar í störfum sínum og vænti góðs samstarfs við þau öll. Jafnframt þakka ég fráfarandi þingmönnum kjördæmisins samstarfið á liðnu kjörtímabili.


Starfsdagur í dag
Í dag, föstudaginn 10. nóvember, er starfsdagur í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins. Eftir hádegi hittist síðan allt starfsfólk sveitarfélagsins á árlegum, sameiginlegum starfsdegi, þar sem við fáum fræðslu auk þess sem við eigum saman góða stund. Samstaða og samheldni er lykillinn að öflugri liðsheild sem nær góðum árangri.


Að lokum
Vetur konungur er sestur að, eftir milt og tiltölulega hlýtt haust. Nú hefur eilítið snjóað, snjófölin lýsir upp svartasta skammdegið sem nú fer í hönd. Ég óska öllum góðrar helgar, njótum árstíðarinnar!