Pistill bæjarstjóra

Fjölskyldudagar 2017
Hinir árlegu fjölskyldudagar sveitarfélagsins, sem er bæjarhátíðin okkar í Sveitarfélaginu Vogum, voru haldnir hátíðlegir í síðustu viku. Dagskráin var fjölbreytt alla vikuna, en náði hámarki eins og endranær á laugardeginum með tilheyrandi útisamkomu í Aragerði, hverfagöngu, hverfaleikum, skemmtidagskrá og flugeldasýningu. Þetta var í 21. skipti sem efnt var til hátíðarinnar, sem tókst í alla staði vel líkt og fyrri hátíðir. Ekki skemmdi að veðrið lék við okkur allan tímann, ekki síst á laugardeginum þegar það var eins og best verður á kosið; logn, hlýtt og sólskin. Bestu þakkir til allra sem lögðu hönd á plóg og sem tóku þátt í hátíðahöldunum.

Gatnagerð og úthlutun lóða
Í sumar hafa staðið yfir framkvæmdir á hinu s.k. miðbæjarsvæði, þar sem unnið er að gatnagerð og lagnavinnu svo unnt sé að úthluta lóðum undir nýjar íbúðir. Verklok eru áætluð í lok september, verktaki í þessu verki eru Jón og Margeir ehf., úr Grindavík. Deiliskipulag svæðisins gerir ráð fyrir u.þ.b. 90 íbúðum alls, í blandaðri byggð. Verkinu var áfangaskipt, og kemur u.þ.b. helmingur svæðisins til úthlutunar nú í ár. Lóðirnar verða væntanlega auglýstar lausar til umsóknar í september, og verður fróðlegt að sjá hver eftirspurnin verður. Talsvert hefur verið um fyrirspurnir af hálfu áhugasamra aðila, einkum byggingafyrirtækja sem sækjast eftir lóðum undir fjölbýlishús. Í þessum áfanga verður úthlutað 5 lóðum undir 6 íbúða fjölbýlishús, auk lóðar undir tvö fimm hæða fjölbýlishús með 20 íbúðum í hvoru húsi. Þá verður einnig nokkrum einbýlishúsa- og parhúsalóðir úthlutað. Það hillir því loks undir að framboð af minni íbúðum fari vaxandi, sem sannarlega er eftirspurn eftir hér. Nú standa einnig yfir framkvæmdir við endurnýjun Hofgerðis, sem ganga samkvæmt áætlun. Verktaki í því verki er Grjótgarðar ehf., í Reykjanesbæ.

Þróun íbúafjöldans
Í upphafi þessa árs voru alls 1.206 íbúar skráðir til heimilis í sveitarfélaginu. Til samanburðar voru þeir 1.148 árið 2016 og 1.102 árið 2015. Samkvæmt íbúaskrá er fjöldinn nú 1.233. Íbúum hefur því fjölgað um 131 á tæpum þremur árum, eða um tæp 12 %. Með úthlutun lóða til nýbygginga og að því gefnu að eftirspurn eftir lóðum verði eins og búist er við, má því gera ráð fyrir áframhaldandi fjölgun íbúa á næstu misserum. Sveitarfélagið mun því þurfa að huga vel að öllum innviðum og uppbyggingu þeirra svo unnt sé að taka á móti væntanlegri fólksfjölgun.


Skólarnir teknir til starfa
Skólasetning Stóru-Vogaskóla var í vikunni, og kennsla því hafin. Leikskólinn tók til starfa að afloknu sumarleyfi fyrr í mánuðinum. Í ár hófu 15 nemendur skólagöngu í Stóru-Vogaskóla, en fjöldi nemenda í skólanum alls eru um 190 talsins. Leikskólinn hefur einnig fengið til sín nokkra nýja nemendur, sem hefja nú skólagöngu sína. Sem fyrr er unnt að bjóða öllum börnum leikskóladvöl þegar þau hafa náð eins árs aldri. Ég óska öllum nemendum velfarnaðar í náminu, og býð sérstaklega nýja nemendur beggja skóla velkomna!


Ungmennafélagið Þróttur
Góður gangur er í starfsemi Þróttar sem endranær. Hluti Norðurlandamóts í knattspyrnu í flokki 17 ára og yngri fór fram hér í Vogum fyrr í sumar, og tókst öll framkvæmd vel. Meistaraflokkur karla er í þriðja sæti 3. deildar sem stendur, verður áhugavert að fylgjast með framhaldinu.


Að lokum
Frést hefur af krækiberin á Vogastapa séu vel þroskuð. Tilvalið að nýta síðsumarið til berjatínslu. Góða helgi!