Óvissustig vegna landriss á Reykjanesi

Almannavarnir boðuðu til upplýsingafundar í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð, síðdegis sunnudaginn 26. janúar 2020. Tilefni fundarins var að greina frá þróun sem verið hefur undanfarið við fjalliði Þorbjörn, milli Svartsengis og Grindavíkur. Samhliða jarðhræringum sem verið hafa talsverðar á svæðinu undanfarið mælist nú landris, sem getur verið vísbending um kvikusöfnun undir yfirborðinu. Þegar kvika safnast saman undir yfirborðinu eru nokkrar sviðsmyndir mögulegar:

  • Kvikusöfnun hættir mjög fljótlega án frekari atburða
  • Kvikusöfnun heldur áfram á sama sað og hraða í einhverntíma án þess að til stærri atburða komi.
  • Landrisið gæti valdið eða tengst frekari skjálftavirkni og þar með hgsanlega stærri skjálftum á þessu svæði.
  • Kvikusöfnun heldur áfram og leiðir til gangainnskots
  • Kvikusöfnun heldur áfram og leiðir til gangainnskots og eldgoss (hraungos á sprungu)

Eins og sjá má á framangreindri upptalningu eru ýmsar sviðsmyndir mögulegar. Almannavarnir leggja því ríka áherslu á að viðbragð sé eflt og allir tilbúnir, einkum ef kemur til rýmingar. Miðað við staðsetningu kvikusöfnunarinnar er unnið út frá rýmingu í Grindavík og Svartsengi, þ.m.t. Bláa lónið. 

Ekki er að svo stöddu gert ráð fyrir beinum áhrif á norðanvert Reykjanesið, þ.m.t. Voga og Vatnsleysuströnd. Á hinn bóginn verðum við að vera undir það búin að komi til eldsumbrota getur það haft áhrif á innviði, svo sem hitaveitu, vatnsveitu, rafmagnsveitu, raforkuframleiðslu, fjarskipti o.fl. 

Við hvetjum alla íbúa á svæðinu til að fylgjast vel með fréttum og tilkynningum, um leið og ítrekað er að hér er fyrst og fremst um varúðarráðstafanir að ræða, þ.e. viðbúnaðarstig felur fyrst og fremst í sér aukna vöktun.