Sveitarfélagið Vogar óskar hér með eftir samstarfi við áhugasama aðila við rekstur líkamsræktarsalar í Íþróttamiðstöð Voga. Líkamsræktarsalurinn er 108 m2. Talið er að í íþróttamiðstöðina komi á ári hverju 35 til 40 þúsund gestir og þar af eru um 14 þúsund sundlaugargestir á almenningstímum.
Nánari lýsing
1. Rekstraraðili skal skipta út og endurnýja allan tækjabúnað líkamsræktarsalarins, Við endurnýjun koma einungis til greina búnaður og tæki frá viðurkenndum framleiðendum líkamsræktartækja. Við mat á tilboðum verður meðal annars litið til lýsingar rekstraraðila á fjölda tækja, gerð þeirra og gæða
2. Rekstraraðili greiðir allan kostnað vegna markaðsmála svo sem auglýsingar, kostunarsamninga og fleira. Rekstraraðila er heimilt að setja upp auglýsingar í líkamsræktarsalnum. Óheimilt er þó að tengja rekstur líkamsræktarsalarins við hvaðeina sem rekst illa með íþrótta- og æskulýðsstarfsemi, s.s. léttölauglýsingar o.fl.
3. Rekstraraðili skal greiða fyrir hvern viðskiptavin sinn aðgangsmiða í sundlaug Sveitarfélagsins Voga. Sama á við um sölu mánaðarkorta í líkamsræktarsalinn, en fyrir hvern gest sem greiðir fyrir slíkan aðgang að líkamsrækt skal rekstraraðili kaupa samsvarandi mánaðarkort að sundlaug Voga (sjá meðfylgjandi gjaldskrá) fyrir viðskiptavini sína.
4. Aðgangseyrir í líkamsræktarsalinn skal skiptast á milli rekstraraðila og Sveitarfélagsins Voga. Rekstraraðili skal skila inn verðhugmyndum í hlutfallsskiptingu aðgangseyris.. Rekstraraðili ábyrgist hins vegar lágmarks leigugreiðslu fyrir afnot að líkamsræktarsalnum og er óskað eftir tilboði í þessa lágmarks leigu. Upphæðin mun fylgja vísitölu neysluverðs og verða uppfærð tvisvar sinnum á ári.
5. Öll innheimta verður í höndum starfsmanna Íþróttamiðstöðvar Voga og skal uppgjör fara fram um hver mánaðarmót. Verð aðgangseyris skal vera í samræmi við það sem gerist hjá sambærilegum líkamsræktarsölum á höfuðborgarsvæðinu.
6. Rekstraraðili tryggir að allir sem kaupa kort í líkamsrækt fái vandaða leiðsögn og undirbúning um notkun tækja og þjálfun áður en þjálfun hefst.
7. Þurfi að fara fram endurbætur eða hefðbundið innanhússviðhald á salnum skal það vera á kostnað rekstraraðila.
8. Náist samkomulag mun það gilda í allt að sex ár. Aðilum er þó heimilt að segja upp samkomulaginu innan samningstímans með sex mánaða fyrirvara.
9. Óheimilt verður að framselja, leigja eða veðsetja samkomulagið, nema með samþykki Sveitarfélagsins Voga.
10. Verði eigendaskipti á fyrirtæki rekstraraðila verður Sveitarfélaginu Vogum heimilt að segja upp samkomulaginu án bóta til rekstaraðila. Slík uppsögn skal fara fram eigi síðar en þremur mánuðum eftir að eigandaskipti verða kynnt sveitarfélaginu.