Orðsending til umráðenda og eigenda fasteigna, lóða og lendna

Orðsending til umráðenda og eigenda fasteigna, lóða og lendna í Sveitarfélaginu Vogum varðandi umhirðu og frágang umhverfis og lóða.

Í tilefni umhverfisdaga í Sveitarfélaginu Vogum sem verða dagana 15. maí til 26. maí nk. og auglýstir verða nánar síðar eru umráðendur og eigendur fasteigna, lóða og lendna hvattir til að huga að umhirðu og  frágangi lóða og lendna sinna með því að hreinsa, fjarlægja og farga af lóðum sínum drasli, hlutum og lausafjármunum (m.a. hjólhýsum, gámum og bátum) sem ekki er leyfi fyrir.
 
Vakin er athygli á ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012 varðandi úrræði til að knýja fram úrbætur á byggðu umhverfi:
Í gr. 2.6.2 segir m.a. þegar lausafjármunir eru staðsettir án stöðuleyfis eða handhafi stöðuleyfis uppfyllir ekki settar kröfur eða önnur skilyrði skal leyfisveitandi krefja eiganda um að fjarlægja þá innan eðlilegs frests, þó aldrei lengri frests en eins mánaðar, að öðrum kosti verði það gert á kostnað eiganda.
Í gr. 2.9.2 segir m.a. sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafar hætta eða það telst skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Mannvirkjastofnunar, eða ekki er gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skal gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er.
Í gr. 3.10.1 segir m.a. að byggingarfulltrúi skuli grípa til viðeigandi aðgerða og úrræða ef ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar er ábótavant, af því stafar hætta eða það telst skaðlegt heilsu.

Einnig er vakin athygli á ákvæðum reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti og mengunarvarnir varðandi hreinlæti á lóðum:
Í 18. gr. segir að eigandi eða umráðamaður húss eða mannvirkis skuli halda eigninni hreinni og snyrtilegri ásamt tilheyrandi lóð og girðingum, þannig að ekki valdi öðrum ónæði.
Í  20. gr. segir að bannað er að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma hluti, búnað eða tæki á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýti á umhverfinu. Þetta gildir jafn um smærri sem stærri hluti.
Í  21. gr. segir að heilbrigðisnefnd er heimilt að láta fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti á almannafæri að undangenginni viðvörun, svo sem með álímingarmiða með aðvörunarorðum.

Það eru vinsamleg tilmæli að umráðendur og eigendur fasteigna, lóða og lendna bregðist vel við orðsendingu þessari og taki höndum saman til að stuðla að fögru og snyrtilegu umhverfi með tiltekt hjá sér. Búast má við að tilmælum þessum verði fylgt eftir með viðeigandi ráðstöfunum af hálfu sveitarfélagsins og heilbrigðiseftirlits gagnvart þeim sem ekki virða þau.

Virðingarfyllst,
Skipulags- og byggingarfulltrúi Sveitarfélagsins Voga