Á föstudag var nýja viðbyggingin við Íþróttamiðstöðina í Vogum afhent og formlega tekin í notkun. Mannvirkið er í eigu Eignarhaldsfélagsins Fasteignar, en sveitarfélagið leigir eignina af Fasteign rétt eins og húsnæði Stóru- Vogaskóla og eldri hluta Íþróttamiðstöðvarinnar. Húsið er byggt af Trésmiðju Hjalta Guðmundssonar, en Almenna Verkfræðistofan hannaði.
Íþróttamiðstöðin var upphaflega reist árið 1993 til að hýsa Íþrótta- og félagsaðstöðu íbúa sveitarfélagsins. Þá voru íbúar í sveitarfélaginu 689. Félagsmiðstöðin Boran var einmitt fyrst á efri hæðinni. Húsnæðið þótti smátt og borulegt, og þaðan er nafn félagsmiðstöðvarinnar dregið.
Síðan þá hefur íbúum fjölgað mikið, í raun hefur íbúafjöldinn nær tvöfaldast, en í dag eru íbúar sveitarfélagsins um 1.150. Með vaxandi íbúafjölda jókst húsnæðisþörf Borunnar og þá fluttist starfsemi Borunnar í annað húsnæði í nokkur ár, en er nú kominn aftur á fornar slóðir í mun glæsilegri aðstöðu en fyrr.
Viðbyggingin er rúmlega 720 m2 að stærð og skiptist á tvær hæðir. Á neðri hæðinni eru búningsklefar og lítill íþróttasalur fyrir þolfimi, júdó og fleiri íþróttir. Á efri hæðinni er aðstaða fyrir Frístundaskólann og Félagsmiðstöðina. Þar verður margvísleg starfsemi fyrir fólk á öllum aldri, þó aðstaðan miðist að mestu leyti við þarfir barna og unglinga.
Í vetur stendur til að opna þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara í Akurgerði, sem mun gjörbylta aðstöðu fyrir starfemi eldri borgara í sveitarfélaginu.
Fasteign og verktökunum er þakkað fyrir vel unnið verk, en húsið er hið glæsilegasta og samskiptin verið með besta móti. Ennfremur vil ég bjóða starfsfólk og íbúa velkomna í nýtt og glæsilegt húsnæði. Við getum öll verið stolt af því að geta boðið upp á svona góða aðstöðu til Íþrótta- og tómstundaiðkunnar.
Íþróttir- og tómstundir eru besta forvörn sem til er. Í þessu húsi má finna mjög góða aðstöðu fyrir íþróttir og tómstundastarf sem mun örugglega skila sér í enn betra mannlífi.
Til hamingju öll !
Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri