Ólafur Þór Ólafsson hefur verið ráðinn í nýtt starf frístunda- og menningarfulltrúa Sveitarfélagsins Voga. Hann var valinn úr hópi átta umsækjenda um starfið.
Ólafur er stjórnmálafræðingur að mennt, með framhaldsmenntun í stjórnsýslufræðum, og hefur mikla reynslu af íþrótta- og tómstundarmálum auk viðamikillar þekkingar á málefnum sveitarfélaga. Hann var íþrótta- og tómstundafulltrúi í Sandgerði í 8 ár og forstöðumaður félagsmiðstöðvar í Hafnarfirði í 4 ár. Auk þess hefur hann sinnt ýmsum félagsstörfum, m.a. gegnt formennsku í Samfés og Íþróttafélaginu Reyni í Sandgerði. Ólafur hefur verið bæjarfulltrúi í Sandgerðisbæ undanfarin 6 ár.
Ólafur kemur til starfa í lok sumars og hefur þá störf á grundvellir nýrrar starfslýsingar. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að úttekt á stjórnskipulagi og starfsemi Sveitarfélagsins Voga og í kjölfarið breytingum sem eru til þess fallnar að bæta enn þjónustu sveitarfélagsins og skilvirkni í rekstri. Auk nýs starfs frístunda- og menningarfulltrúa hefur nýtt starf bæjarritara verið auglýst og standa viðtöl yfir.
Helstu verkefni frístunda- og menningarfulltrúa er að skipuleggja íþrótta-, frístunda- og menningarstarf á vegum sveitarfélagsins ásamt því að skipuleggja þjónustu við eldri borgara í formi tómstunda og móta og framfylgja forvarnarstefnu sveitarfélagsins. Hann annast daglega starfsemi í íþrótta- og frístundamiðstöð og þjónustumiðstöðinni Álfagerði.
Bæjarstjórn býður Ólaf velkominn til starfa í öflugum hópi starfsmanna sveitarfélagsins og bindur miklar vonir við hans framlag til starfseminnar.