Óbreyttar gjaldskrár og skatthlutföll á árinu 2009

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Voga var samþykkt við seinni umræðu í bæjarstjórn þann 29. janúar síðastliðinn. Í samræmi við stefnu bæjarstjórnar var þann 13. janúar haldinn fyrsti opni íbúafundur sveitarfélagsins um fjárhagsáætlun og ráðstafanir í tengslum við hana.

Áætlunin er lögð fram við mjög sérstakar aðstæður þar sem óvissa um þróun í efnahagslífi þjóðarinnar næstu misseri er mikil. Í áætluninni birtist sú stefna sem mörkuð var í bæjarráði í upphafi efnahagskreppunnar að tryggja grunnþjónustu sveitarfélagsins á sviði félags- og fræðslumála og leitast við að tryggja gott atvinnustig í Vogum og á Suðurnesjum.

Bæjarstjórn ákvað að hækka ekki skatta og gjöld frá árinu 2008, þrátt fyrir mikla verðbólgu á árinu. Með því er bæjarsjóður að leggja sitt af mörkum til að styðja við íbúana við þær aðstæður sem nú eru.

Helstu atriði eru eftirfarandi í þúsundum króna.
Tekjur: 592.307
Gjöld: 703.652
Niðurstaða án fjármagnsliða -111.345
 
Fjármunatekjur og (fjármagnsgjöld) 140.946
Rekstrarniðurstaða jákvæð 29.601

Gert er ráð fyrir framlagi frá Framfarasjóði til rekstrar og fjárfestinga að fjárhæð 226 milljónir.
Veltufé frá rekstri er áætlað tæpar 136 milljónir, eða um 23% af tekjum.
Afborganir lána eru áætlaðar um 76 milljónir.

Gert er ráð fyrir að útsvarstekjur bæjarsjóðs lækki um 8% milli ára vegna lækkandi tekna íbúa og fækkun gjaldenda, auk þess sem gert er ráð fyrir að framlög Jöfnunarsjóðs lækki. Fjárþörf bæjarsjóðs vegna lækkandi tekna og fjárfestinga verður mætt með framlagi úr Framfarasjóði Sveitarfélagsins Voga, en bæjarstjórn hefur samþykkt að nýta vexti og verðbætur áranna 2008 og 2009, þannig að stofnframlag sjóðsins verði óskert í árslok 2009, eða 1.256 milljónir króna.

Gert er ráð fyrir að rekstrarkostnaður haldist nánast óbreyttur milli ára, þrátt fyrir að rekstrarkostnaður við leikskóla hafi hækkað sérstaklega í kjölfar nýrrar deildar við leikskólann. Bæjarráð og starfsfólk hefur unnið að ýmsum hagræðingaraðgerðum sem miða að því að lækka allan breytilegan kostnað. Stefnt er að því að segja ekki upp starfsmönnum í hagræðingarskyni, en metið verður í hverju og einu tilviki hvort nauðsynlegt sé að ráða í störf sem losna.   

Gert er ráð fyrir fjárfestingum fyrir um 290 milljónir á árinu 2009, annarsvegar við uppbyggingu verslunar- og þjónustusvæðis við nýjan miðbæ og hinsvegar vegna kaupa á landi. Uppbygging verslunar- og þjónustusvæðis mun skapa störf á uppbyggingartíma og til langframa við verslun og þjónustu í bænum. Auk þess er gert ráð fyrir framkvæmdum við göngu- og hjólreiðastíg frá Vogum að mislægum gatnamótum við Reykjanesbraut. Sú framkvæmd er áætluð í tengslum við fyrirhugaðar breytingar á almenningssamgöngum innan Suðurnesja og milli þeirra og höfuðborgarsvæðisins.

Fjárhagsáætlun ársins 2009
Gjaldskrár Sveitarfélagins Voga 2009