Nýr skólastjóri tekur til starfa

Sveinn Alfreðsson hefur hafið störf sem skólastjóri Stóru- Vogaskóla, en hann tekur við af Snæbirni Reynissyni. Sveinn kemur til okkar frá Hafnarfirði, þar sem hann var deildarstjóri fjölgreinanáms í Lækjarskóla. Hann hefur víðtæka menntun, m.a. framaldsmenntun í stjórnun og sérkennslufræði, reynslu af þróunarstarfi, ásamt fjölbreyttri reynslu af kennslu og stjórnun.

Þróunarstarf það sem byggt hefur verið upp í Hafnarfirði, við mjög krefjandi aðstæður, undir forystu Sveins hefur þótt mjög árangursríkt og vakið mikla athygli. Auk þess hefur hann hlotið sérstakar viðurkenningar fyrir störf sín, meðal annars viðurkenningu landssamtaka foreldra, Heimilis og skóla, auk foreldraverðlauna foreldraráðs Hafnarfjarðar. Hann á að baki mjög farsælan feril sem kennari og stjórnandi.

Sveinn hefur verið leiðandi í þróun nýsköpunarkennslu og hefur kennt og verið prófdómari á námskeiðum á háskólastigi.

Við bjóðum Svein velkominn til starfa og væntum mikils af starfi hans við Stóru- Vogaskóla.

Aðrar breytingar verða stjórnunarteymi skólans næsta vetur, þar sem Inga Sigrún Atladóttir, deildarstjóri yngsta stigs er í barnsburðarleyfi. Skarð hennar mun fylla Hilmar Egill Sveinbjörnsson, göngugarpur með meiru.
Linda Sjöfn Sigurðardóttir, deildarstjóri miðstigs og Jón Ingi Baldvinsson, aðstoðarskólastjóri verða áfram í stjórnunarteymi skólans, en þau hafa mikla reynslu af störfum innan skólans.   

Það er ljóst að hin nýja forysta Stóru- Vogaskóla  býr yfir gífurlegri reynslu og þekkingu sem miklar vonir eru bundnar við í áframhaldandi þróun skólastarfsins. Það er ljóst að það er mikil áskorun fólgin í því að taka við rótgrónum skóla sem þekktur er af framsæknum verkefnum sem byggð voru upp af kennaraliði skólans undir stjórn fráfarandi skólastjóra.