Auka aðalfundur Ungmennafélagsins Þróttar í Vogum var haldinn í félagsmiðstöðinni í Vogunum síðast liðið miðvikudagskvöld. Á fundinum var aðeins eitt mál á dagskrá, ársreikningurinn. Þar sem hann var ekki samþykktur á aðalfundinum sem haldinn var 18. apríl en þar var skýrsla stjórnar og ársreikningar lagðir fram sem og kosið í nýja stjórn. Nýr formaður var kjörinn, Svava Arnardóttir en hún var stjórnarmeðlimur í fyrri stjórn. Miklar breytingar urðu á aðalstjórn félagsins. Sæmundur Runólfsson framkvæmdastjóri UMFÍ var gestur á fundinum. Fundurinn var ágætlega sóttur og voru umræður málefnalegar. Mikið og gott barna og unglingastarf er hjá félaginu þar sem markmiðið er að hafa það gaman saman ásamt því að stunda heilbrigt líferni. Metnaðarfullt starf er unnið í öllum deildum, fjöldi barna og unglinga leggja stund á íþróttir hjá okkur, eina eða fleiri. Að hvetja börn og unglinga til að stunda íþróttir og hlúa að þeim svo þeim sé það mögulegt er ekki bara einhver besta uppeldisaðferð sem til er heldur hefur það einnig mikið forvarnargildi. Þá má ekki gera lítið úr félagslega þættinum. Margir eignast sína bestu vini í gegnum íþróttaiðkun og það að stunda íþróttir í hóp eða að æfa sem einstaklingur með öðrum er bæði þroskandi og gefandi.
Fyrir okkur Þróttara voru þrír viðburðir sem stóðu sérstaklega upp úr á árinu 2012. Það var 80 ára afmælishátíðin okkar, vígsla á nýjum og glæsilegum knattspyrnuvöllum og haustmót JSÍ sem við héldum í október síðast liðnum.
Ný stjórn hlakkar til að koma saman og halda áfram að vinna að því góða starfi hjá Þrótti.