Ný setustofa fyrir unglingadeildina í Stóru- Vogaskóla

Mánudaginn 5. nóvember var tekin í notkun setustofa í Stóru- Vogaskóla en hún hefur sérstaklega verið útbúin fyrir nemendur í 7. – 10. bekk. Þar eru þægileg og viðeigandi húsgögn og þar er einnig að finna ýmislegt sem hægt er að dunda sér við þegar nemendur eiga frían tíma. Óskað var eftir að foreldrar gæfu spil, tímarit eða annað sem nýst gæti í setustofunni.  Foreldrar Huldu Petru í 8. bekk, þau Fanney og Geir Ómar, gáfu leikinn Sequence, yatzy og spilastokk og foreldrar Dagbjartar Katrínar í 9. bekk, þau Inga Sigrún og Eric,  gáfu spurningaspilið Viltu vinna miljón, spilastokk og 1000 kubba púsluspil.  

Auk þess keypti skólinn nokkur spil, tímarit, plaggöt, bækur og skriffæri til að hafa á setustofunni auk þess sem þar er hægt að spila á gítarana tvo sem Lionsklúbburinn Keilir gaf skólanum á dögunum.

Áður en setustofan var formlega opnuð fluttu nokkrir nemendur skemmtiatriði á sal. Hekla Eir Bergsdóttir í 8. bekk ásamt þremur bekkjarsystrum sínum söng og Klemens Sigurbjörnsson í 10. bekk lék lag á gítar. Athöfninni lauk síðan með ís- og súkkulaði trakteringum.