Ný og betri leikskólalóð. Framkvæmdir að hefjast

Á næstu dögum hefjast framkvæmdir við endurgerð lóðarinnar við Heilsuleikskólann Suðurvelli.  Á leikskólanum eru nú um 90 börn í fjórum deildum, en sem kunnugt er bættist ein deild við leikskólann haustið 2008. Lóð leikskólans hefur ekki þróast í samræmi við starfsemi leikskólans og var kominn tími á endurbætur og lagfæringar.

Við hönnun lóðarinnar var leitað til starfsfólks leikskólans eftir tillögum og margar góðar hugmyndir komu fram. Þær hugmyndir voru lagður til grundvallar við endanlega útfærslu á hönnun lóðarinnar. Markmið leikskólans er að útileiksvæðið sé aðlaðandi og öruggt og bjóði upp á fjölbreytta hreyfingu og fjölbreytni í leikaðstöðu.

Upphaflega stóð til að vinna verkefnið í júlí þegar leikskólinn færi í sumarfrí, með það í huga að þá hefðu framkvæmdirnar ekki áhrif á starfsemina. En að betur athuguðu máli var ákveðið, í samráði við starfsmenn, að flýta framkvæmdunum með tilliti til þess að lóðin nái að gróa í sumar. Auk þess stendur til að mála leikskólann að utan í sumarfríinu.
Á meðan á framkvæmdunum stendur munu börn og starfsmenn ekki hafa aðgang að leikskólalóðinni en samt sem áður verður útivist daglega, ætlunin er að fara í vettvangsferðir og vera dugleg að nýta okkur opin svæði í Sveitarfélaginu.

Uppdráttur af nýrri leikskólalóð

Nánari upplýsingar á vef Heilsuleikskólans Suðurvalla